þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

“Það var tjón að missa hann”

odinn@eidfaxi.is
17. júní 2014 kl. 10:41

Þröstur frá Efri-Gegnishólum

Níu af tíu í 1.verðlaun

Í stuttu samtali við Berg Jónsson í vor sagði hann mikinn missi vera í Natan frá Ketilstöðum en hann var feldur vegna tjóns á fæti árið 2012.

Nú í vor voru tíu afkvæmi hans sýnd í kynbótadómi og hlutu níu þeirra 1.verðlaun og eitt 7,90 í aðaleinkunn. Þetta er frábær árangur þar sem aðeins eru til um hundrað afkvæmi hans og um helmingur þeirra ekki kominn á tamningaraldur.

Natan var sonur Kolfinns frá Kjarnholtum og Toppsdótturinnar Væntingar frá Ketilsstöðum, en Natan var annað afkvæmi hennar. Hann slasaðist ungur á afturfæti og var í raun aldrei heill eftir það. Árangur hans í brautinni var í raun með ólíkindum miðað við meiðsli hans en hann hlaut best 8,40 í aðaleinkunn og þar af 9,0 fyrir samræmi, tölt og fegurð í reið.

Þegar einkunnir afkvæma hans eru skoðaðar þá kemur í ljós að afkvæmi hans eru að jafnaði 21 stigi hærri í sköpulagi en mæður þeirra og þar bætir Natan samræmið mest eða um 46 stig sé miðað við meðaleinkunn mæðranna. Hvað hæfileikanna varðar þá eru afkvæmi hans að jafnaði rúmum tuttugu stigum hærri en mæður sínar fyrir tölt, stökk og fegurð í reið. Meðaleinkunn sýndra afkvæma hans er 8,01 en mæðra þeirra 7,89.

Það hefði trúlega verið gott fyrir ræktunina að njóta Natans lengur en raun varð en synir hans þeir Narri frá Vestri-Leirárgörðum og Þröstur frá Efri-Gegnishólum munu halda uppi merkjum hans og líkjast föður sínum að mjög mörgu leiti. Þeir eru góðir arftakar föður síns enda báðir með 9,0 fyrir fegurð í reið eins og hann.