sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Það sanna, það góða og það fagra

21. desember 2011 kl. 13:57

Bent Rune Skulewald

Það sanna, það góða og það fagra

Næsta grein sem við birtum kemur inn á mörg af hitamálum ársins þó hún sé skrifuð árið 2009. Greinina skrifaði stjórnandi GaitAcademy og dómari, Bent Rune Skulewald, sem hefur margoft komið hingað til lands og dæmt. Greinin birtist í jólablaði Eiðfaxa fyrir tveimur árum síðan:

 

Það sanna, það góða og það fagra

 
Eitthvað til umhugsunar
 
Vegna vilja okkar til þess að búa til alþjóðlega staðla fyrir menntun reiðmanna, reiðkennara og dómara blasir við að við verðum að finna viðmiðin sem við getum notast við í hverju atriði fyrir sig. Í mörgum atriðum er þetta kannski ekki jafn auðvelt fyrir okkur eins og til dæmis þá sem rannsaka hreyfingarfræði brokks veðhlaupahesta með það að markmiði að meta gæði brokksins, vegna þess að þar eru viðmiðin mælanleg með tímatöku og út úr áverkaskýrslum.
 
Mat á hreyfingarfræði íslenska hestsins er erfiðara vegna þess að þar kemur hreyfingarfegurðin inn í með öllum þeim hugtökum sem notuð eru til að skilgreina hana. Til að geta metið þetta neyðumst við til að sameinast um nokkur ákveðin grundvallarviðmið. Með öðrum orðum; við verðum að vera sammála um hver grundvöllurinn fyrir matið/dóminn er. Nú munu margir segja að þetta komi skýrt fram í dómaraleiðaranum. Spurningin er hins vegar hvort að þeir leiðarar sem við styðjumst við séu nógu fullkomnir til þess að þeir muni leiða okkur í rétta átt, eða þarf kannski að skoða þá nánar og ræða einstök atriði þeirra af meiri dýpt en gert hefur verið? Væri það byrjunin á faglegri nálgun til framfara?
 
Hvaðan koma dómaraleiðbeiningarnar?
 
Það er kannski kominn tími til að spyrja hvaðan þessar leiðbeiningar komu. Var það Móses sem tók þær með sér af fjallinu? Eru þær til einhvers staðar greyptar í stein? Kannski væri enn meira spennandi að finna út, á hvaða „leyfi“ þær eru byggðar. Það leiðir okkur að kjarna málsins, við hvað við þurfum að halda okkur, hvers vegna þetta „leyfi“ getur farið fram á að það njóti virðingar og viðurkenningar sem einu sannindin og að allir geti treyst á að starf þess sé hafið yfir gagnrýni. Að lokum kemur svo spurningin um hvort þetta viðhorf sé það sem nota á í reiðmennsku og kennslu almennt.
 
Varðandi reiðmennsku og kennslu
 
Það er til orðatiltæki sem segir: „Ef þú trúir því í einlægni að mikil ástundun geti vegið upp skort á kunnáttu, þá verður enginn endir á því sem þú ekki getur gert“. Hörð vinna ein og sér er ekki lausnin. 
 
Erfitt er að átta sig á raunverulegum verðmætum sumra hluta sem kenndir eru. Ég hef t.d. aldrei skilið æfinguna „að kyssa ístöðin“. Ég ætla ekki að segja neitt um hvort hún sé góð eða slæm, með tilliti til allra þeirra sem gætu haft aðra skoðun á málinu en hafa ekki möguleika á að svara fyrir sig. Samt undrast ég það að á öllum mínum námsferli til þriðju gráðu sem reiðkennari, undir leiðsögn margra bestu reiðkennara sem hægt er að finna í alþjóðlegri reiðmennsku, heyrði ég aldrei minnst á þessa æfingu. Miklu meiri áhersla var lögð á að forðast bæri að hesturinn lærði að ofbeygja sig í hálsinum. Afleiðinguna af æfingunni „að kyssa ístöðin“ sjáum við síðan best þegar verið er að kenna knöpum að ríða hina ágætu æfingu „sniðgang“. Sniðgangur er þörf, góð og nytsöm æfing fyrir bæði hest og knapa, en mörgum reynist erfitt að gera þessa æfingu rétt þegar hesturinn hefur lært að „ofbeygja“ hálsinn. Þetta sést oft og er þá niðurstaðan að hesturinn gengur ofbeygður og á framhlutanum. 
 
Hvaðan kemur leyfi mitt til að hafa skoðanir?
 
En hvað er það þá sem gefur mér leyfi til að dæma íþróttakeppni og kenna reiðmennsku og staðhæfa að mínar skoðanir séu réttari en þínar? Get ég staðið á því að réttur minn til að hanna og túlka leiðbeiningarnar liggi í því að ég er FEIF-dómari? Ef þú einnig ert FEIF-dómari myndi það kannski jafna stöðuna í smá stund, en á því augnabliki sem ég geri mistök munu réttindi mín sem  FEIF-dómari ekki hjálpa mér. Að maður inn á milli geri svo stór mistök að það uppgötvist verðum maður sennilega að lifa með. Meira að segja þeir knapar sem telja sig vera fagmenn/atvinnumenn gera mistök sem knapar, svo það væri skrýtið ef það ætti ekki að vera leyfilegt fyrir dómara. Það er merki um styrk og getu að þora að gera mistök. Dómarar sem eru mjög hræddir við að gera mistök munu sennilega halda sig í kringum örugga svæðið sem er í kringum 5,5–6,0.
 
En hvað eða hver er það sem ákveður hvað eða hver það er sem hefur leyfi til að ákveða hvað er það rétta? Skoðum aftur reiðmennskuna og reiðkennsluna. 
 
Ég er sennilega sá reiðkennari sem hefur mesta formlega hæfni í FEIF. Þér finnst það kannski gott eða slæmt, en þannig er það samt. Þegar við vorum í síðasta bóklega tímanum í Reiðskólanum í Strömsholm (Svíþjóð) sagði dressurkennarinn að núna, í lok okkar náms, vildi hann gjarnan beina athygli okkar að því að það sem eiginlega myndi þýða eitthvað fyrir okkar í framtíðinni væri hvernig við björguðum okkur í raunveruleikanum, frekar en að við gætum notað einkunnablöðin eða „diplomað“ okkar í eitthvað sérstakt. Ég var að sjálfsögðu vonsvikinn vegna þess að ég hafði í gegnum árin safnað svo mörgum „diploma“skjölum og námskeiðastaðfestingum að ég hefði örugglega getað fóðrað alla veggi í svefnherberginu mínu með þeim.
 
Ég vil samt meina að leyfi mitt sem reiðkennari liggi að hluta til í því að ég hef verið nemandi hjá bestu meisturum á sviði reiðmennsku. En hvernig get ég verið svona viss um að kennararnir mínir hafi virkilega verið jafn góðir og ég ímynda mér? Eða er sú skoðun mín kannski bara byggð á þekktum sálfræðilegum ferlum, þar sem ég er með þessari hugsun minni að verja þann tíma sem ég notaði í að læra? Sjálfsagt hafa þeir formlega þekkingu, en hvað er það sem sannfærir mig um að það sem ég lærði hjá þeim sé það rétta, eða að minnsta kosti ekki alveg rangt? Það er hér sem sagan öll byrjar að renna saman við byrjunarhugleiðingarnar um hvaðan leiðbeiningarnar í dómaraleiðurunum eiginlega koma.
 
Allar aðferðir eru góðar, nema þær sem eru slæmar
 
Allt saman liggur í setningu sem ég lærði hjá fyrrverandi rektor á Strömshólmreiðskólanum, Major Vikne. Hann sagði: „Allar aðferðir eru góðar, nema þær sem eru slæmar“.
Af virðingu við hann mun ég ekki reyna að útskýra hvað hann hafði í huga, en ég vil útskýra minn skilning á þessari staðhæfingu. Fyrir mér snýst þetta um „það sanna, það góða og það fagra“. 
 
  • „Það sanna“ í reiðmennsku er hægt að finna með því að halda sig við reiðmennsku sem löguð er að líffræðilegum möguleikum hestsins til að bera knapa á bakinu. 
  • „Það góða“ í reiðmennsku mun maður upplifa þar sem kröfur knapans til hestsins eru sanngjarnar og byggja á siðferðilega traustum grunni. 
  • „Það fagra“ fjallar um fagurfræðilegar víddir. Fagurfræðin er ekki afmörkuð við það myndfagra, en fær í rauninni merkingu, í augnablikinu sem gefur okkur víðari skilning á þann hátt að hárin rísa og tárin renna. 
 
Leiðbeiningar Sigurðar Haraldssonar
 
Mín skoðun er sú að einungis í gegnum það sanna, það góða og það fagra geti maður gefið sér leyfi til að leggja línurnar fyrir hvað góð reiðmennska og góð frammistaða er í heildinni. Það er þess vegna sem ég er alltaf svo hrifinn af hinum klassísku leiðbeiningum Sigurðar Haraldssonar fyrir gæðingakeppni, en leiðbeiningar hans eru fullkominn sjóður af fagurfræðilegri þekkingu í gegnum það sanna, góða og það fagra.
 
Staðlað atvinnusamfélag íslenska hestsins 
 
Ef við getum verið sammála um að útgangspunkturinn hefjist í því sanna, því góða og því fagra, mun liggja beint við að við göngum skrefi lengra og mótum rammann í kringum hina faglegu atvinnugrein knapa á íslenskum hestum. Dómarar verða að sjálfsögðu boðnir með sem mikilvægur og áhugaverður hópur. Þetta mun geta þróast í að verða einskonar opið vinnuumhverfi sem samanstendur af atvinnumönnum sem vinna sjálfstætt fyrir utan FEIF, en sem að sjálfsögðu gætu orðið eins konar stuðningsaðili FEIF hvað varðar umræðu og spurningar varðandi menntun. Maður gæti litið á það sem einskonar alþjóðlegt FT. Vegna þess að nægur áhugi er fyrir hendi munum við geta skipulagt okkar eigin óháðu samtök sem gætu borið nafnið „Staðlað atvinnusamfélag íslenska hestsins“ til framtíðargleði fyrir alla áhugamenn um íslenska hestinn.
 
Framtíðarsýn
 
Mínar óskir fyrir komandi framtíð er að FEIF hvetji félögin í hinum ýmsu löndum til að taka gæðingakeppnina upp, að landsfélagið í hverju landi hvetji hestamannafélögin til að byggja velli viðurkennda af LH fyrir gæðingakeppni og að Jamaican Icelandic Horse Assciation verði tekið inn í FEIF, að FEIF dómarar verði teknir inn í þróunar- og lærdómsferli, að reiðkennararnir hætti að kenna eitthvað sem ekki hefur tilgang í sjálfu sér, að Svíarnir hætta að ríða hestum sínum á bak við lóðlínu og að þeir hætti að kenna aumingja Portúgölunum um það, að hestarnir í framtíðinni stoppi þegar maður tekur í báða tauma og að allir knapar annað hvort verði hvattir til betri reiðmennsku eða til að viðurkenna að kannski hafi þeir það best á örugga svæðinu.
 
Auk þess óska ég þeim sem hafa komist í gegnum alla þessa grein „til hamingju“ með það og sérstaklega vil ég óska öllum gleðilegra jóla og ennfremur alls góðs á komandi ári.
 
Bent Rune Skulewald