laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Það er gefandi að vera sjálfboðaliði

12. september 2019 kl. 09:00

Hjónin Íris Dröfn Jónsdóttir og Ingvar Rafnsson ásamt dóttur sinni Dagnýju Fjólu

Eiðfaxi tók íslenska fjölskyldu tali á HM í Berlín sem öll störfuðu sem sjálfboðaliðar á mótinu

 

 

Það sem öll hestamannamót, stór og smá, eiga sameiginlegt er það að þau eru drifin áfram af sjálfboðaliðum. Þessir sjálfboðaliðar eru því ómissandi hluti af hestamennskunni og á meðan þeir eru til staðar er hægt að halda kostnaði eins lágum og mögulegt er. Ef öll vinna væri aðkeypt þarf ekki að velta því lengi fyrir sér hvernig færi fyrir þessum mótum. Á heimsmeistaramótinu í Berlín voru hundruðir sjálfboðaliða við hin ýmsu störf. Þeirra á meðal var íslensk fjölskylda sem nú er búsett í Danmörku en þau hafa verið sjálfboðaliðar á tveimur síðustu heimsmeistaramótum í Hollandi og Þýskalandi. Þetta eru hjónin Ingvar Rafnsson og Íris Dröfn Jónsdóttir og dóttir þeirra Dagný Fjóla Ingvarsdóttir. En hvað kemur til að þessi fjölskylda eyði frítíma sínum í það að vinna í sjálfboðavinnu fyrir hestamenn. „Við mæðgurnar erum með hestadellu á háu stigi. Þetta byrjaði allt á heimsmeistaramótinu í Herning árið 2015. Við vorum áhorfendur og það vakti athygli okkar hversu glaðir og skemmtilegir viðmóts allir sjálfboðaliðarnir voru. Ingvari varð á orði að þetta hlyti að vera góð reynsla. Við vorum svo næstum komin út af svæðinu síðasta daginn þegar Ingvar stoppar og segir að hann hafi séð kynningarbás fyrir sjálfboðaliða  fyrir HM í Hollandi 2017. Við snérum við og skráðum okkur. Mótinu í Hollandi gleymum við aldrei en Íris vann á barnum og sá til þess að vekja fólk með kaffi ilmi og brosi. Ingvar var í öryggisgæslunni og Dagný var í unglingahópi sem rölti um og týndi rusl.“

 

Það má nærri geta að upplifunin af því að vera sjálfboðaliði í Hollandi hafi verið góð þar sem fjölskyldan var mætt til leiks í Berlín. „Það var svo gaman í Hollandi að við hikuðum ekki þegar haft var samband við okkur og við spurð hvort við vildum taka þátt í Berlín. Við höfum einnig verið sjálfboðaliðar á Icehorse festival í Herning árin 2018 og 2019.“ En hvað er það sam fær fólk til þess að vera sjálfboðaliðar og eyða frítíma sínum í það að þjóna mótsgestum, knöpum og starfsfólki? „Sem sjálfboðaliði færðu mun dýpri reynslu og ert með í því að skapa það sem fram fer á bak við tjöldin. Þú ert með í því að gera viðburðinn að veruleika og svo færðu tækifæri til að sjá heimsins fallegustu íslensku hesta í sínu besta formi. Það er ótrúlega gefandi og þroskandi að vera sjálfboðaliði og við skemmtum okkur alveg konunglega allan tímann.“ Nú er, eins og nafnið gefur til kynna, sjálfboðaliða starfið ólaunað. Fáið þið eitthvað í staðinn fyrir það að vera sjálfboðaliðar eða þurfið þið að standa undir öllum kostnaði sjálf. „Við fáum að sjálfsögðu vinnuföt, þ.e.a.s. boli, jakka, derhúfur. Við fáum einnig minningargrip sem einkennir heimsmeistaramótið eða þann viðburð sem við tökum þátt í. Við fáum góðar og kjarngóðar máltíðir, morgun-, hádegis- og kvöldmat. Þá gista sjálfboðaliðar ókeypis hvort sem að þeir eru með húsbíl, hjólhýsi eða tjald og við borgum ekki fyrir rafmagn. Við fáum afslætti í ýmsar verslanir á staðnum og svo er tími til að skipuleggja ferðir þar sem maður getur skoðað landið og menninguna. Ekki má gleyma öllum þeim sem maður kynnist í þessu ævintýri. Vinátta sem lifir með hjálp netmiðla. Við höfum fengið gesti sem við kynntumst í Hollandi árið 2017 og eigum heimboð um allan heim. Við sem erum sjálfboðaliðar hlökkum til að hittast í hvert sinn og pössum það að vera saman á tjaldsvæðinu á kvöldin og eiga skemmtilega stund“.

 

Það er ljóst af þessu að það að vera sjálfboðaliði er gefandi starf í góðum hópi en hvað felur sjálfboðaliða starfið í sér á jafn stóru móti og heimsmeistaramótið er? „Fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt hér fyrr í viðtalinu geta störfin verið jafn mörg og þau eru mismunandi. Þau geta falist í því að aðstoða dýralækna, aðstoða í hesthúsi eða eldhúsi, þrífa salerni eða sjálft keppnissvæðið, standa í miðasölu, veita upplýsingar til sjálfboðaliða eða gesta, sjá um tjaldsvæði, umferðastjórnun, barnapössun og svo mætti lengi telja. Leitast er við að  hver sjálfboðaliði vinni í aðeins 4-6 klst á dag en stundum eru tímarnir fleiri einn daginn og færri þann næsta. Svo er hægt að skipta um vaktir innbyrðis ef að maður vill t.d. sjá ákveðinn hest eða knapa.“  Þau Ingvar, Íris Dröfn og Dagný Fjóla eru búsett í Óðinsvéum í Danmörku en þau fluttu utan sumarið 2007. Þar stunda þau sína hestamennsku. „Íris hefur verið í hestum frá því hún man eftir sér en hætti alveg þegar fjölskyldan flutti til Danmerkur. Dagný erfði þessa bakteríu og hefur leitt fjölskylduna aftur út í hestamennskuna. Dagný er fimmtán ára gömul og var komin í hnakkinn strax sex ára gömul. Hún eignaðist sinn fyrsta íslenska hest í byrjun júní á þessu ári. Þetta er hestur sem krefst tíma og natni og tíminn mun leiða það í ljós hvernig til tekst með hann.“ Nú er Landsmót framundan á næsta ári, eigum við von á því að hitta þessa duglegu fjölskyldu þar. „Við erum ekki alveg búinn að ákveða það en okkur langar alveg rosalega að prófa að mæta á Landsmót. Við eigum tuttugu ára brúðkaupsafmæli á næsta ári og maður veit aldrei hvað gerist hjá ævintýragjörnu fólki. Eitt er hins vegar alveg víst það er það að við verðum mætt til sjálfboðaliðastarfa á næsta heimsmeistaramóti en það fer fram í Herning í Danmörku eins og flestir vita. Þar tökum við á móti íslendingum og öðrum með brosi á vör“. Eiðfaxi þakkar þessari glaðværu fjölskyldu fyrir spjallið og nýtir tækifærið og þakkar þeim vel unnin störf á HM í Berlín. Án sjálfboðaliða væri mótahald nánast ógerlegt.