sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tenór frá Túnsbergi metinn á 33 milljónir-

9. febrúar 2010 kl. 14:04

Tenór frá Túnsbergi metinn á 33 milljónir-

Stofnað hefur verið hlutafélag um hæfileikabombuna Tenór frá Túnsbergi. Hlutirnir í félaginu eru sextíu talsins og er verðið á hverjum þeirra 550.000 kr. Það þýðir að hesturinn er metinn á litlar 33 milljónir króna.

Ræktendur hestsins, þau Gunnar Kristinn Eiríksson og Magga Brynjólfsdóttir í Túnsbergi, segja að ástæða þess að hlutafélagið hafi verið stofnað sé sú að þau hafi fundið fyrir miklum áhuga á að halda hestinum í landinu. Í fyrrahaust stóð til að hesturinn yrði seldur úr landi og voru nokkrir erlendir aðilar búnir að sýna honum mikinn áhuga. Þegar það spurðist út, fundu þau Gunnar og Magga mikinn áhuga fólks á því að halda honum á landinu, enda klárinn gríðarlega hæfileikaríkur og hlaut hvorki meira né minna en 9.15 fyrir hæfileika á Héraðssýningunni að Sörlastöðum í Hafnarfirði í maí í fyrravor. Hann hlaut 9.5 fyrir tölt, brokk og vilja og geðslag og 9.0 fyrir skeið, fegurð í reið og hægt stökk.

Til upprifjunar, þá er Tenór undan heimsmeistaranum og efsta stóðhestinum í BLUPINU í dag, Garra frá Reykjavík og Gáskadótturinni Stöku frá Litlu-Sandvík.

Tamningamaðurinn og þjálfarinn Erlingur Erlingsson í Langholti á heiðurinn af þjálfun Tenórs og hann sýndi hann fyrst vorið 2007, þá 4v gamlan og fór hann beint í fyrstu verðlaun og hlaut 8.33 fyrir hæfileika, þrátt fyrir að vera sýndur sem klárhestur.
Tenór er ennþá hjá Erlingi og aðspurður um framhaldið hjá hestinum, segir Gunnar að hann fari ekki aftur í kynbótadóm að svo stöddu, heldur muni hann koma fram á öðrum vettvangi í sumar. Eiðfaxi getur í eyðurnar og reiknast svo til að stefnt sé með kappann í gæðingakeppni, svo kannski munum við fá að sjá kappann í keppni á hringvelli í náinni framtíð. Hann ætti að geta náð langt þar, þessi flinki, viljugi og aðsópsmikli gæðingur.