miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tekist á um beislisbúnað - Viðtal við Gunnar Sturluson, nýjan stjórnarmeðlim FEIF-

7. mars 2011 kl. 09:34

Tekist á um beislisbúnað - Viðtal við Gunnar Sturluson, nýjan stjórnarmeðlim FEIF-

Gunnar Sturluson hæstaréttarlögmaður er varaformaður Landssamband hestamannafélaga (LH). Hann er einnig formaður hestamannafélagsins Snæfellings auk þess sem hann ræktar hross kennd við bæinn Hrísdal á Snæfellsnesi. Á aðalfundi FEIF á dögunum var Gunnar kosinn í stjórn samtakanna.

Hann heimsótti Eiðfaxa og ræddi um þetta nýja alþjóðlega hlutverk sitt og þau málefni efst voru á baugi á aðalfundinum.

„Fundurinn lagðist prýðilega í mig. Það sköpuðust miklar umræður í einstökum nefndum um mörg málefni en einhugur virðist vera um flesta hluti innan stjórnar. Í íþróttanefndinni tókust menn á um tillögu Þjóðverja og Svisslendinga þess efnis að banna notkun á skáreim við enskan múl, þegar riðið er við stangir með keðju. Íslensku fulltrúarnir urðu undir í þeirri umræðu og málið tapaðist í atkvæðagreiðslu,“ segir Gunnar. Á fundinum var ákveðið að banna notkun þess konar beislisbúnaðar í íþróttakeppni.

Gunnar segir að umræðan um beislisbúnað sé hluti af velferðarumræðu sem er í gangi. “Knapar á íslenskum hestum á meginlandi Evrópu hafa setið undir gagnrýni frá hestafólki sem stundar reiðmennsku á öðrum hestakynjum um að nota grófan og of aflmikinn búnað þegar riðið er við stangamél. Margir vilja banna stangir nema í mjög afmörkuðum og takmörkuðum tilfellum. Fyrir þinginu lá önnur tillaga sem lýtur að því að banna stangir í léttari flokkum, en hún fékk hins vegar ekki afgreiðslu. Sú umræða er eflaust næst. Okkar fólk í íþróttanefndinni hefur veri að berjast fyrir því að halda reglunum óbreyttum, en enskur múll með skáreim verður áfram leyfður í gæðingakeppnum og kynbótasýningum,” segir Gunnar.

Hann segir FEIF standa fyrir endurskoðun á sýningar- og keppnisregum samtakanna á vegum sérstakrar nefndar “Task Force” og er henni m.a. ætlað að samræma reglur milli ólíkra keppnisgerða og því hafi þessi nýsamþykkta regla innan íþróttanefndar lagst nokkuð illa í marga sem töldu sérstakt að breyta þessum reglum mitt í heildarendurskoðun og samræmingarvinnu.

“Mín fílósófía er sú að við eigum að hafa sem fæstar og skýrastar reglur um búnað. Þú leiðréttir ekki grófa reiðmennsku endalausum reglum. Það er taumhendin sem ræður mestu, ekki reiðmúllinn eða mélin.”

Gunnar telur þörf á velundirbúnum og rökstuddum umræðum um þau málefni sem liggja fyrir FEIF og segir hana hafa skort í málflutningi á aðalfundinum. “Það er allt í lagi að fólk hafi skoðanir á beislisbúnaði, en engar faglegar athuganir liggja fyrir okkur núna sem styðja fullyrðingar um að stangir séu almennt verri búnaður en hringamél. Það er nauðsynlegt að íslenskir tamningamenn og hestafólk taki þátt í þessari umræðu og leggi línurnar. Við þurfum að vita hvað þeir vilja ef það á að vera hægt að fylgja hlutunum eftir.”

Hann telur brýnt að Ísland taki alþjóðlegu forystuhlutverki sínu alvarlega. “Hér á landi er mesta úrvalið af góðum hestum. Hér koma flest kynbótahross til dóms og þess vegna hljótum við að leggja línurnar í ræktun, tamningu og reiðmennsku á íslenskum hestum. Ef Ísland ætlar að vera leiðtogi þurfum við að taka frumkvæði í allri umræðu um það sem er efst á baugi hverju sinni. Við þurfum að grípa tillögur á lofti, skoða þær og taka rökstudda afstöðu til þeirra. Við verðum að fá okkar fagfólk með og ná fram uppbyggilegum, rökstuddum og vel undirbúnum málflutningi.”

Viðtal við Gunnar Sturluson verður í næsta tölublaði Eiðfaxa.