fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tekið til kostanna

5. maí 2014 kl. 15:50

Dagur frá Strandarhöfði á Íslandsmóti 2010, knapi Stefán Friðgeirsson.

Umfjöllun eftir Svölu Guðmundsdóttur

"Stórsýningin Tekið til Kostanna var haldin í 13 skiptið í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki 26.apríl. Fyrr um daginn héldu reiðkennaraefni Hólaskóla sína árlegu kennslusýningu í reiðhöllinni. Alltaf er jafn fróðlegt og gaman að fylgjast með þeim aðferðum sem Hólaskóli leggur áherslu á í sinni kennslu. Að þessu sinni komust nemendur mjög vel frá sínum þætti með markvissri framsetningu. 

Einnig fór fram keppni í gæðingafimi sem byggir á hugmyndum Mette Mannseth og nemendum þriðja árs. 
Nokkrum knöpum var boðin þáttaka. Forkeppni fór fram um daginn en þeir bræður Sigvaldi Lárus og Ólafur Andri kepptu til úrslita um kvöldið. Fór það svo að Ólafur Andri vann naumlega og hlaut að launum Hrímnis hnakk. 

Eftir settlegt opnunaratriði komu inná gólfið þrjár klárhryssur, ágætar hryssur þar sem Gola frá Krossanesi undan Stormi frá Herriðarhóli vakti hvað mesta athygli setin af Magnúsi Braga. 

Þrír stóðhestar komu þar á eftir þar af tveir frá Kagaðarhóli þeir Hausti og Vaskur, ólikir hestar en komu báðir ljómandi vel fyrir. Sá þriðji Oddi frá Hafsteinsstöðum 5v. Sæsonur fór vel hjá Skafta, léttstígur og kátur hestur sem gaman verður að fylgjast með. Móðir Odda er fótaburðahryssan Linsa frá Hafsteinsstöðum.

Jóhann B. Magnússon bóndi á Bessastöðum kom ásamt dóttur sinni Helgu Rún með tvö hross úr eigin ræktun. Þau Bessastaðafeðgin eru ávalt vel ríðandi og var engin undantekning á því þetta kvöldið. 

Ungir stóðhestar frá Saurbæ komu saman í atriði. Allt efnisfolar sem eiga án efa eftir að sjást á kynbótabrautinni.

Þá geystust í salinn feðgarnir frá Skriðu í Hörgárdal þeir Þór Jósteinsson og sonur hans Egill Már. Þeir feðgar voru flugríðandi á hryssunum Gínu frá Þrastarhóli og Sögu frá Skriðu. Var þetta klárlega eitt besta atriði kvöldsins þar sem fór saman frjálsleg og létt reiðmennska og frábær hross. 

Bjössi og stelpurnar sjö voru með munsturreið sem var vel heppnuð. Allt eru þetta ungir og efnilegir krakkar úr Skagafirði og endurspeglaði kynjahlutfallið í þessu atriði hve stelpurnar eru að verða öflugar í hestamennskunni. 

Feðginin á Syðra-Skörðugili eru vel þekkt sem öflugt keppnisfólk. Elvar, Ásdís og Viktoría riðu létt um salinn og sýndi Elvar æfingar sem ekki hafa sést áður í Svaðastaðahöllinni. 

Úr Svarfaðardalnum komu Svabbi og Tina með stóðhestinn Lottó frá Miðhópi. Eftir að Svavar hafði lagt Lottó til skeiðs tók Tina við og sýndi æfingar byggðar á trausti manns og hests. 

Narri frá Vestri-Leirárgörðum mætti ásamt knapa sínum Þórarni Eymundssyni. Hesturinn sýndi fjölhæfni sína og glæsileika. 

Elvar Einarsson sá snjalli skeiðknapi sigraði skeiðið á Segli frá Halldórsstöðum.

Sjö brún afkvæmi Vilmundar frá Feti mættu. Öll voru þau góð á tölti og gæðingurinn Brigða frá Brautarholti flugvökur. 

Feðgarnir frá Íbishóli voru léttir að vanda á fótaburðahrossunum Glettu frá Steinnesi og Birtu frá Laugardal.

Þrjár alhliðahryssur Mön frá Hafsteinsstöðum, Ársól frá Strandarhöfði og Blika frá Skriðu voru saman á gólfinu. Ólíkar hryssur en mikil tilþrif Ársólar á brokki vöktu athygli. 

Gaman var að sjá Karlana úr hesthúsahverfinu á Sauðárkróki koma saman í atriði. Allir vel ríðandi með aldursforsetann Búa Vilhjálmsson á léttvígri hryssu Roðadís frá Hólavatni.

Bjössi og Arndís á Vatnsleysu komu með systkinin Hraunar og Heklu sem eru bæði undan Glampadótturinni Hrund. Hraunar er allrar athygli verður, hágegnur og rúmur klárhestur. 

Stefán Friðgeirsson og Dagur frá Strandarhöfði voru sérstakir heiðursgestir sýningarinnar og stóðu þeir félagar fyrir sínu eins og ávalt. 

Sá snjalli knapi Egill Þórarinsson mætti með Spes frá Vatnsleysu og fóru þau mikinn þótt fótaburðurinn virtist aðeins þvælast fyrir á köflum. 

Skagfirðingurinn Guðmundur Hjálmarsson kom frá Akureyri með sín reiðhross sem ekki eru af verri gerðinni. Guðmundur fékk úrvals knapa í lið með sér og úr varð mjög skemmtilegt atriði. Gaman var að sjá Guðmund sjálfan á Lyftingu frá Fyrirbarði og gaf hann atvinnuknöpunum ekkert eftir.

Var þetta valið atriði kvöldsins af áhorfendum. 

Óhætt er að segja að lokaatriðið hafi verið hápunktur kvöldsins. Trymbill frá Stóra-Ási var mættur og knapinn Mette Mannseth. Trymbill er búinn að sjást nokkrum sinnum í Svaðastaðahöllinni í vetur og ávalt góður. Þetta kvöld var engin undantekning og þessi magnaði gæðingur sýndi alla sína bestu kosti. Trymbill var valinn hestur kvöldsins og eftir að hafa farið um salinn á sínu frábæra tölti flaug hann í gegnum höllina á sniðföstu skeiði. 

Ánægjulegu kvöldi var lokið og knapar fara að færa sig undir bert loft með hækkandi sól."