miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tekið til kostanna - hestadagar í Skagafirði, 26.-27. apríl

23. apríl 2013 kl. 13:23

Tekið til kostanna - hestadagar í Skagafirði, 26.-27. apríl

“- Yfirlit yfir helstu sýningaratriði -

 Meðal þess sem boðið verður upp á er stórsýning í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki laugardagskvöldið 27. apríl þar sem margir af bestu hestum og knöpum landsins fara á kostum, ræktunarbú sýna gullmola sína, afkvæmi þekkta stóðhesta leika listir sínar, glæsihryssur verða kynntar til leiks og fjölbreytt atriði önnur verða í boði. Veitt verða peningaverðlaun fyrir fljótasta skeiðhestinn, glæsilegasta hest sýningarinnar og besta atriðið. Að lokinni sýningu verður dansleikur á Mælifelli þar sem Hreimur og Rúnar Eff spila ásamt hljómsveit.
 
Meðal gæðinga sem koma fram á sýningunni má nefna Korg frá Ingólfshvoli sem var hæst dæmdi klárhesturinn 2012, Brag frá Bjarnastöðum sem var Íslandsmeistari í skeiði 2012, stóðhestana Sólon frá Vesturkoti (9,5 tölt, 9 fyrir brokk, stökk og vilja og geðslag), Púka tvo frá annars vegar Lækjarbotnum og hins vegar Kálfholti, Gretti og Byr frá Grafarkoti, feðgana Þey frá Prestsbæ og Hlekk frá Saurbæ, 1. verðlauna hryssurnar Gátu frá Ytra-Vallholti og Kviku frá Leirubakka. Þá má nefna sýningu Molaafkvæma frá Skriðu, afkvæma Sendingar frá Enni og afkvæma Dimmbláar frá Hafsteinsstöðum. Að auki verða glæsileg sýningaratriði frá fjölda landsþekktra knapa, atriði frá fulltrúum ungu kynslóðarinnar, sýningar reiðkennaraefna Hólaskóla, að ógleymdum húnvetnsku dívunum sem heiðra okkur með nærveru sinni.
 
Fyrr um daginn fer fram kennslusýning reiðkennaraefna Hólaskóla í reiðhöllinni og opið hús verður í Hrímnishöllinni hjá Hrossaræktarbúinu Varmalæk, bæði föstudag og laugardag. Í Hrímnishöllinni verður m.a. nokkur fjöldi hrossa til sölu og má þar finna hross allt frá veturgömlu til 1. verðlauna hrossa.
 
Forsala aðgöngumiða er á N1 á Sauðárkróki og er miðaverð aðeins kr. 2500,-
 
Nánari upplýsingar er að finna á www.horse.is og hjá Ingimar í síma 891-9560 eða Steinunni Önnu í síma 455-7107,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum