föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tannröspun hesta er ill meðferð á dýrum

13. nóvember 2012 kl. 15:23

Tannraspanir á hrossum hafa færst í vöxt undanfarinn áratug og sömuleiðis þau tæki og tól sem notuð eru.

Skýrsla um áverka keppnishrossa sýnir svart á hvítu að tannröspun er gagnslaus í þeim tilgangi að koma í veg fyrir munnsár

Fremstu sérfræðingar heims á sviði hestatannlækninga, þar á meðal Torbjörn Lundström og Ove Wattle, sem báðir eru kennarar við Dýralæknaháskólann í Uppsölum í Svíþjóð og virtir sérfræðingar á sýnu sviði á heimsvísu, segja tannraspanir gagnslausar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir munnsár. Rétt val á beisli og notkun þess vegi þar mest. Raspanir séu hins vegar oftar en ekki skaðlegar fyrir tannheilsu hrossanna og þeir skaðar séu óbætanlegir.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir, kynnti nýlega niðurstöðu skýrslu sem byggð er á gögnum úr heilbrigðisskoðuninni Klár í keppni á Lands- og Íslandsmótum hestamanna. Kynningin fór fram á vegum LH, sem á frumkvæði að heilbrigðisskoðuninni. Fyrirfram var vitað að niðurstöðurnar væru ekki viðunandi, en myndir sem Sigríður sýndi af munnáverkum og voru teknar á mótsstað voru sláandi og sýndu svo ekki varð um villst að áverkarnir eru í mörgum tilfellum mun verri og ljótari en flestir höfðu ímyndað sér.

44% allra keppnishrossa á LM2012 voru með sár í munni áður en keppni hófst (fyrsta og annars stigs áverka) og þar af voru um 8% með alvarlega áverka (annars stigs áverka).  16% allra hrossa í úrslitum í gæðingakeppni mótsins voru með alvarlega áverka.

Samkvæmt lögum og reglum LH er skýrt að særð hross mega ekki taka þátt í keppni og sýningum mótsins. Sigríður svaraði því til þegar hún var spurð um hvers vegna hrossum hefði ekki verið vísað frá keppni, bæði í byrjun móts og eins fyrir úrslit þegar ljóst var að áverkar nokkurra hrossa hefðu versnað, að mat þetta væri tiltölulega nýtt af nálinni og ennþá í þróun. Hún hefði ekki talið stætt á því á þeim tímapunkti að beita ströngustu viðurlögum. Nú væri hins vegar búið að fara vandlega yfir öll gögn og niðurstöðurnar áreiðanlegri. Í því ljósi þurfi nú að ákveða framhaldið.

Að mati Sigríðar, sem hefur haft yfirumsjón með Klár í keppni frá því hún hófst á LM2006, leikur enginn vafi á því lengur að mél með tunguboga, bæði hringamél og stangamél, eiga stærstan þátt í áverkum á tannlausa bilinu á neðri kjálka hrossa, sem alla jafna eru alvarlegustu og sársaukafyllstu áverkarnir.

Hún tók sérstaklega fram að tannraspanir væru gagnslausar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir munnsár og vitnaði þar í nýjustu rannsóknir á því sviði. Enda kæmi það glöggt fram í niðurstöðum skýrslunnar að tannraspanir hefðu ekki komið í veg fyrir munnsár keppnishrossa á Lands- og Íslandsmóti, ástæðurnar væru aðrar. Hún gat þess líka að tannskemmdir af völdum tannröspunar og af völdum beislisméla (tanneyðing og tannlos) væru mun algengari heldur fólk gerði sér grein fyrir. Athuganir bentu til að mörg hross væru með tannpínu árum saman.