fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tamningamenn á Íslandi með of mörg hross

19. desember 2011 kl. 12:20

Rúna Einarsdóttir Zingsheim á Frey frá Nordsternhof.

Ónógur undirbúningur meðal annars orsök áverka

Jóhann Skúlason, fimmfaldur heimsmeistari í tölti, segir að meðal annars megi rekja áverka á keppnis- og sýningarhrossum hér á landi til ónógs undirbúnings. Knapar geti komist hjá áverkum með að koma betur undirbúnir til leiks.

Þetta kemur fram á vef Hestafrétta, þar sem greint er frá fyrirlestrum og fræðslukvöldi þeirra Rúnu Einarsdóttur Zingsheim og Jóhanns hjá Herði í Mosfellsbæ á laugardaginn var.  Bæði eru sammála um að tamningamenn á Íslandi séu með of mörg hross og nái ekki að gefa hverju og einu þann tíma sem þau þurfa. Rúna sagði ennfremur að ábyrgðin sé alfarið hjá knapanum. Fólk eigi að setja hestinn í fyrsta sæti og læra að spara hann.

Hitað upp, þjálfað, og kælt niður
Rúna sagði að Freyr, keppnishestur hennar í fimmgangsgreinum, sé þjálfaður á hlaupabretti þrjátíu og fjórar mínútur á dag. Síðan hringteymi hún hann í tuttugu mínútur fyrir hvern reiðtúr, og byrji og endi hvern reiðtúr á tuttugu mínútna fetkafla, til að fyrirbyggja álagsmeiðsli. Þetta þýðir að Freyr er þjálfaður í níutíu og fjórar mínútur (eina og hálfa klukkustund) fyrir utan hinn hefðbundna  „íslenska reiðtúr“ þar sem riðið er á góðgangi. Fram kom hjá Rúnu að Freyr var ekki hinn upplagði reið- og keppnishestur í byrjun og útheimti mikla leiðréttingavinnu.