þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tamningamenn álykta um áverka

12. desember 2011 kl. 00:38

Tamningamenn álykta um áverka

Aðalfundur Félags tamningamanna fór fram sl. föstudagskvöld á Kænunni í Hafnarfirði. Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskrá, auk jólakvöldverðar að hætti vertsins...

Umræður á fundinum voru líflegar og tæpt á ýmsum málum, s.s. menntamálum hestamanna frá ýmsum hliðum, hlutverki félagsins og samstarfinu við Hólaskóla. Einnig var mikið rætt um niðurstöður áverkaskoðana á Landsmóti og kynbótasýningum sl. sumar og var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða á fundinum:

Aðalfundur Félags tamningamanna, haldinn í Hafnarfirði 9. desember 2011, hvetur alla þá sem stýra reglusetningum er varða keppni og sýningar hrossa til að samræma áverkaskoðanir og sjá til þess að hross séu skoðuð bæði fyrir og eftir keppni/sýningu.
Hross sem skoðast með áverka fyrir keppni/sýningu fái ekki að taka þátt og hross sem skoðast með áverka þar sem blóð sést að keppni/sýningu lokinni hljóti ekki einkunn eða verðlaun.

Greinargerð:
Samkvæmt dýraverndarlögum og keppnisreglum skulu hross sem koma til keppni og sýninga vera ósár. Í ljósi niðurstaðna áverkaskoðana á keppnis- og kynbótahrossum sl. sumar er full ástæða til að bregðast við með afgerandi hætti. Velferð hestsins skal ávallt höfð að leiðarljósi, bæði í þjálfun og keppni.

Sigrún Ólafsdóttir var endurkjörin formaður til tveggja ára á fundinum og ný inn í stjórn kom Camilla Petra Sigurðardóttir í stað Þórdísar Önnu Gylfadóttur sem gaf ekki kost á sér áfram. Fjölbreytt starfsemi FT var rakin í skýrslu stjórnar og framundan eru ýmsir viðburðir á vegum félagsins, sá fyrsti laugardaginn 17. desember nk. þar sem margfaldir heimsmeistarar, þau Jóhann Rúnar Skúlason og Rúna Einarsdóttir-Zingsheim, munu halda fyrirlestur um þjálfun og uppbyggingu hrossa í Harðarbóli í Mosfellsbæ kl. 18.