laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Taktu myndir núna - Vandaðri stóðhestamyndir

1. júní 2011 kl. 16:08

Taktu myndir núna - Vandaðri stóðhestamyndir

Bréf frá Sigurði Sigmundssyni ljósmyndara og blaðamanni - Ég hef iðulega hugleitt  myndir  af stóðhestum í stóðhestablöðunum...

sem árlega eru gefin út síðari hluta vetrar. Það er ekki ofsögum sagt að margar myndir sem fylgja stóðhestaauglýsingum eru ekki góðar svo ekki sé meira sagt. Myndir eru teknar við hinar ýmsu aðstæður og eiga lítið erindi í blöðin. Oftlega birtast myndir af hestum í snjó og knapinn þá gjarnan dúðaður í úlpu eða kuldagalla og bakgrunnur  einnig afleitur. Aðalatriðið virðist vera að hesturinn reki aðra framlöppina nógu langt upp í loftið. Hve mikið hún er þyngd fylgir ekki með!!! Þessu þarf að breyta og vanda miklum mun betur til verka. Fólk verður að leggja meiri vinnu í myndatöku á stóðhestum sínum.
     
  Nú er tími sýninga kynbótahrossa og mikill fjöldi sýndur. Ungfolar eru að fara úr húsi á græn grös og gengnir úr hárum. Allir folar, tveggja til fjögurra vetra hljóta að eiga að vera leiðirtamir. Þá er auðvelt að stilla þeim upp á góðum stað, þar sem bakgrunnur er góður. Það er einnig mögulegt að ná góðum hreyfingamyndum af lausum  hestum. Ekki spillir að sjáist t.d. í vatn eða fagurt skógarkjarr í bakgrunni. Það má ekki hika við að leggja töluvert á sig og jafnvel aka hestunum á einhvern góðan stað þegar birtuskilyrði eru góð. Nota tækifærið áður en hestunum er sleppt af húsi á vorin.  

Það segir jú oft mikið að sjá góðar hreyfingamyndir af tömdum stóðhestum. Oftast er notast við myndir teknar í sýningu og knapinn smekklega klæddur. En oftar en ekki er birta, snúrur, grindverk eða einhver óæskilegur bakgrunnur sem spillir myndinni. Því eru þessi orð sett á blað til hugleiðinga og ábendinga til stóðhestaeigenda. Notið tækifærið þegar knapinn er fallega klæddur og látið taka myndir utan vallar ef þarf, á upphitunarvelli eða annars staðar þar sem skilyrði eru góð.

    Vitanlega er engin mynd fullkomin fremur en önnur mannanna verk. En sitthvað mætti leggja á sig og kosta til og taka góðar  myndir af stóðhestum. Ef fagmaður væri fenginn þyrfti það ekki að kosta nema sem nemur hluta af einum folatolli miðað við verðlagið á þeim dýrustu. Það er að sjálfsögðu hægt að laga myndir mikið í photoshop, og er gert. Það er þó ekki alltaf til mikilla bóta ef allt annað er tekið af myndinni nema hesturinn sjálfur. Þessar línur eru settar fram til hugleiðinga nú á vordögum þegar best er að mynda stóðhestana.
  Með þessum orðum fylgir mynd af fallegum stóðhesti en sitthvað gæti betur farið á þessari mynd.
    Með hestamannakveðju Sigurður Sigmundsson