miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Systkini valin hestaíþróttadrengur og stúlka Spretts

22. desember 2014 kl. 09:37

Hestaíþróttafólk Spretts.

Stjórn Spretts hefur tekið þá ákvörðun að breyta fyrirkomulagi á vali á hestaíþróttamanni Spretts. Hér eftir verður tilhögunin þannig að valið verður drengur og stúlka í flokki 13-16 ára og kona og karl í flokki yfir 17 ára.

Stjórnin telur að með þessari ákvörðun myndist enn meiri hvatning fyrir okkar frábæra keppnisfólk og einnig náist að skapa meiri stemmingu í kringum val á hestaíþróttamanni ársins. Við erum stórt félag með mikið af hæfileikaríku fólki bæði kvenkyns og karlkyns og með þessu telur stjórnin að við náum til fjöldans. Auk þess hefur stjórn félagsins ákveðið að velja efnilegastu knapana okkar í yngri flokkum en það verður gert og tilkynnt á Aðalfundi félagsins í febrúar um leið og formleg verðlaunaafhending verður fyrir Hestaíþróttafólk Spretts 2014.

Það er gaman að segja frá því að í ár náðu systkini þeim árangri að verða fyrir valinu sem hestaíþróttadrengur og stúlka Spretts 2014, þau Hafþór og Særós - Birgis og Liljubörn.

Hestaíþróttadrengur Spretts 2014 er Hafþór Hreiðar Birgisson, fæddur 26.mars 2000
Hafþór er dugmikill drengur sem stundar hestaíþróttina af kappi með fjölskyldu sinni. Hann sinnir þjálfun og tamningu á eigin hrossum og tekur þátt í hestaferðum með fjölskyldu sinni. Hann tók þátt í öllum vetramótum Spretts með ágætis árangri. Hann varð í 2. og 3. sæti á Æskulýðsmóti Spretts með hrossin Dímon frá Hofsstöðum og Ljósku frá Syðsta-Ósi.

Hafþór og Ljóska kepptu á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks í Tölt T7 með einkuninna 6.08 og enduðu í 2. sæti. Á Íþróttamóti Spretts sigruðu þau T7 töltkeppnina með 6.67 og í 3-4 sæti í fjórgangi með einkunnina 6.5. Hafþór vann Gæðingamóti Spretts sem jafnframt er úrtaka fyrir Landsmót á Ljósku frá Syðsta- Ósi með einkuninna 8.67 og urðu þar með 1 af 2 hæstu á landsvísu inn á Landsmót í unglingaflokki. Á Landsmóti fengu þau 8.60 í forkeppni, 8.53 í milliriðli, enduðu þar með í A-úrslitum og enduðu í 5. sæti með einkunnina 8.65 sem er frábær árangur.

Hestaíþróttastúlka Spretts 2014 er Særós Ásta Birgisdóttir fædd 31. janúar 1999
Er dugmikil hestakona sem stundar hestamennskuna af kappi og þjálfar öll sín hross sjálf og aðstoðar jafnframt við þjálfun hrossa í eigu fjölskyldunnar. Særós tók þátt í öllum vetrarleikum með hestinn Gust frá Neðri-Svertingsstöðum og komst í úrslit í tveimur af þremur. Hún keppti á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks og lenti í 6.sæti í slaktaumatölti og fékk 5.73 í fjórgangi Á íþróttamóti Spretts varð hún í 1.sæti í slaktaumatölti , einkunn 6.25 og 5.sæti í fjórgangi, einkunn 6.27. Á Gæðingamóti Spretts sem jafnframt var úrtaka fyrir Landsmót lenti hún í 4.sæti. með einkunnina 8.28. Í forkeppni á Landsmóti fékk hún í einkunn 8.27 en komst ekki áfram í milliriðil.

Hestaíþróttakona Spretts 2014 er María Gyða Pétursdóttir fædd 16. desember 1993
María Gyða hefur staðið sig vel á keppnisvöllum Spretts á þessu ári. Fyrir utan góðan árangur á vetrarleikum - þar sem hún varð í 1 sæti í öll 3 skiptin - þá stóð hún sig einnig vel á öðrum minni mótum hjá öðrum félögum. Jafnframt átti hún glæsilegan árangur á stórmótum Spretts sem eru Íþróttamótið og Gæðingamótið. Á Íþróttamóti Spretts sigruðu þau María Gyða og Rauður frá Syðri Löngumýri tölt T3 í ungmennaflokki með einkunnina 7.0. Á Reykjavíkurmeistaramóti urðu þau í 7. sæti í tölti T3. Á Íslandsmóti urðu þau í 4-5 sæti í tölti ungmenna og 7. sæti í fjórgangi ungmenna. Á Gæðingamóti Spretts sigruðu hún og Rauður frá Syðri –Löngumýri ungmennaflokkinn með einkunnina 8.70 og fóru því sem efstu fulltrúar Spretts á Landsmót. Þeim gekk vel í forkeppni, komu út úr milliriðli með einkunnina 8.45 og enduðu í 3.sæti í A úrslitum með 8.70. Glæsilegur árangur það.

Hestaíþróttakarl Spretts 2014 er Ævar Örn Guðjónsson.
Ævar hefur staðið sig feiknavel á öllum vígstöðvum hvað varðar keppnir, sýningar og kynbótasýningar á árinu. Ekki verða týnd til nöfn á öllum þeim hrossum sem hann hefur keppt á eða sýnt. Hann hefur sýnt hross á öllum helstu hestasýningum landsins, keppti í Meistaradeildinni , tók þátt í Íþróttamóti Spretts með góðum árangri – hér eru úrslitin: F2 1.fl. 5. Sæti, T1 2 sæti, T3 A fl. 1 sæti, Gæðingaskeið m.fl. 3.sæti, 150 m skeið 3.sæti, 250 m skeið 2. sæti. Á Gæðingamóti Spretts var hann með þrjá af átta efstu hestum í A – flokki og þar með fulltrúar Spretts á Landsmót og í B flokki tvo af níu. Á Landsmóti varð hann í 3.sæti í 150 og 250 m skeiði.
Ævar sýndi auk þess fjölmörg kynbótahross s.l. vor og sumar með góðum árangri.
Ævar Örn hefur staðið sig frábærlega á árinu á fjölmörgum vígstöðvum sem erfitt er að leika eftir.