föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sýningar hefjast í næstu viku

Óðinn Örn Jóhannsson
17. maí 2017 kl. 11:10

Hersir frá Lambanesi. Knapi Agnar Þór

Kynbótasýningar 2017- frétt frá Landsráðunauti.

Kynbótasýningar hefjast á Íslandi í næstu viku í Hafnarfirði en boðið verður upp á 14 sýningar í ár víðs vegar um landið fyrir utan Fjórðungsmót Vesturlands sem haldið verður að þessu sinni í Borgarnesi. Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið í Hollandi dagana 7. - 13. ágúst. Stefnt er að því að 6 kynbótahross fari fyrir hönd Íslands á mótið eins og verið hefur, í flokka stóðhesta og hryssna; fimm, sex og sjö vetra og eldri. Val kynbótahrossa á HM verður að liggja fyrir 1. júlí í ár og verður því valið úr kynbótahrossum sem sýnd verða á sýningum á undan þeirri dagsetningu. Sýningaráætlun ársins og allar reglur um kynbótasýningar má finna á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is, undir Búfjárrækt/hrossaækt. Hérna er ætlunin að fara yfir val kynbótahrossa inn á Fjórðungsmótið og nýjar vinnureglur við mat á vilja og geðslagi og skeiði.

Fjórðungsmót á Vesturlandi.

Fjórðungsmót verður haldið á Vesturlandi í ár, nánar tiltekið í Borgarnesi, dagana 28. júní - 2. júlí. Hross sem eru í eigu aðila á Vesturlandi, Vestfjörðum, Húnavatnssýslum eða Skagafirði eiga þáttökurétt á mótinu og er miðað við að lágmarki 25% eignarhlut. Það er því mikilvægt að eigendur kynbótahrossa fari yfir upplýsingar um heimilisfang sitt í heimaréttinni í WorldFeng en það er hægt að lagfæra þær upplýsingar í flipanum Um mig í heimaréttinni ef þær eru ekki réttar. Ef hross skiptir um eiganda í vor verða eigendaskiptin að hafa farið fram fyrir kynbótadóm á viðkomandi hrossi. Ákveðin fjöldi efstu hrossa í hverjum flokki eiga þátttökurétt á mótinu og er því ekki um einkunnalágmörk að ræða (sjá fjölda í töflu hér að neðan). Miðað er við að 68 kynbótahross verði á mótinu. Til að auðvelda bestu klárhrossum með tölti að komast inn á mótið verður 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið. Þetta er sama leið og var farin fyrir síðasta landsmót hvað klárhrossin varðar. Þegar kynbótasýningarnar byrja á Íslandi verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum er beðnir að láta vita fyrir 18. júní, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu.

Fjöldi kynbótahrossa á FM 2017 verður sem hér segir: Átta stóðhestar í öllum flokkun nema sex í elsta flokki. Hryssur verða 8 í 4 vetra flokki, 14 i fimm vetra flokki, 10 í 6 vetra flokki og 6 í elsta flokki. All verða því 30 hryssur og 30 stóðhestar.

Nýjar vinnureglur við kynbótadóma.

Tvær nýjar vinnureglur við kynbótadóma taka gildi í vor. Fyrri vinnureglan á við dóma á vilja og geðslagi. Það hefur verið í gildi vinnuregla sem segir að fari hrossið ítrekað lengra en afmörkun brautar segir til um geti það haft áhrif á dóma á vilja og geðslagi. Þetta hefur ekki þótt nægilega skýr regla og ekki nógu vel til þess fallin að dómnefndir meðhöndli á samræmdan hátt þegar hrossi er riðið ítrekað lengra en afmörkun brautar segir til um (það er út fyrir 250 metrana sem afmarkar brautina). Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að gera dómnefndum betur kleift að sjá þegar hrossið er hægt niður í enda brautar og snúið við en það er mikilvægt við mat á þjálni. Ef hrossinu er riðið lengra en afmörkun brautarinnar sjá dómarar ekki niðurhægingar og viðsnúninga nægilega vel og að sjálfsögðu merki um óþjálni sé ekki hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan brautar. Því hefur verið ákveðið að taka í gildi skýrari reglu um þetta atriði til að bæta mat á vilja og geðslagi. Reglan er sem hér segir:

Til að bæta mat á samstarfsvilja og þjálni skal, fyrir hærri einkunnir fyrir vilja og geðslag,  horft til þess að hrossið sé hægt niður á fet í viðsnúningum á brautarendum. Ef ekki er hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan afmörkunar brautarinnar, þá er 8.0 hámarks einkunn fyrir vilja og geðslag. Þó má gera undantekningu þegar um sýningu á mjög greiðu stökki og skeiði er að ræða svo fremi að niðurhægingin sé mjúk og átakalaus. Hverfi hross úr sjónsviði dómara eða sýnir mikla óþjálni er 7.0 hámarkseinkunn fyrir vilja og geðslag. Til að hljóta hækkun fyrir vilja og geðslag á yfirlitssýningu þarf að sýna greinilega fram á að hægt sé að hægja hrossið mjúkt og átakalaust niður innan afmörkunar brautarinnar.

Það er merki um þjálan og mikinn vilja ef hægt er að hægja niður á fet á flestum gangtegundum í enda brautar og spinna hrossið upp til afkasta endurtekið í plús og mínus átt hestsins. Það skal því horft til þess ef hinar hærri einkunnir eru gefnar. Hámarkseinkunn er sett sem 8.00 sé hrossinu riðið út fyrir afmörkun brautar en það er gert vegna þess að þá sér dómnefndin viðsnúninga í brautarendum ekki nægilega vel og takmarkar matið á þjálni hestsins. Undantekningu má gera á þessari reglu ef hrossinu er riðið til mikilla afkasta á skeiði og stökki. Það er gert til að bjóða afrekshrossum, ungum sem eldri, möguleika á hestvænum niðurhægingum. En það er að því gefnu að hraðinn sé afar mikill og niðurhægingin eigi sér að mestu stað innan brautar.

Hvað varðar mat á skeiði var ákveðið að bæta við nýrri vinnureglu en hún er þessi:

Þegar einkunnir 8.5 eða hærri eru gefnar fyrir skeið skal hestinum greinilega riðið á stökki í aðdraganda skeiðsins og hann tekinn niður á skeið af stökki. Einnig skal horft til þess að hesturinn sé í jafnvægi í niðurhægingu.

Þessi regla er sett til þess að bæta mat á takti og líkamsbeitingu hestsins á skeiði. Tölt og skeið eru líkar gangtegundir að svo mörgu leyti og því er til bóta við mat á skeiði að sjá að hægt sé að losa um hestinn á stökki áður en hann er tekinn niður á skeið. Það skilur á milli hesta sem eru snjallvakrir og eiga auðvelt með líkamsbeitingu (snið) sem skilar svifi og þeirra hrossa sem þarf að stífa af og renna inn í skeið af tölti til að sækja svif í gangtegundina. Einnig er þetta íslensk reiðhefð og krafa sem gerð er til hrossa í keppni til hærri einkunna; hvort sem það er í fimmgangi, gæðingakeppni eða gæðingaskeiði. Hugmyndin með því að fara fram á að hesturinn sé í jafnvægi í niðurhægingu er ekki sú að fara fram á útfærslu á skeiðsprettum líkt og í gæðingaskeiði, heldur að sjá að hesturinn sé í andlegu og líkamlegu jafnvægi á skeiðinu og hvellstytti sig ekki í enda spretts.