föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sýning ræktunarbúa í kvöld

1. júlí 2016 kl. 15:38

Kirkjubær

Kynning á ræktunarbúunum.

Í kvöld fara fram ræktunarbússýningar en þær hefjast kl. 19:00 en tíu ræktunarbú taka þátt, Ketilsstaðir/Syðri Gegnishólar var boðið að taka þátt en þau voru valin ræktunarbú ársins í fyrra og keppnishestabú ársins. Önnur hrossaræktarbú eru Berg, Efri-Rauðilækur, Gunnarsstaðir, Hafsteinsstaðir, Íbishóll, Kjarnholt I, Stóra-Vatnsskarð, Varmilækur, Vatnsleysa og Ytra-Vallholt.

 

Ketilsstaðir / Syðri Gegnishólar

Tveir hrossastofnar sameinast undir heiti ræktunarbúsins, annars vegar eru það hrossin sem sögð eru frá Ketilsstöðum en formóðir þeirra er Ljónslöpp eldri frá Ketilsstöðum. Undan henni urðu þrjú hross eftir í ræktuninni, en það voru hryssurnar Rauðka og Ljóska og hesturinn Glói, öll alsystkini undan Lýsingi 409 frá Voðmúlastöðum. Bergur tók við ræktuninni og ræktaði lengi þennan stofn ásamt föður sínum Jóni Bergssyni á Ketilsstöðum.

Hrossin sem sögð eru frá Syðri Gegnishólum, eru öll ættuð frá Kleifum/Stangarholti/Selfossi og nú Syðri Gegnishólum. Þau eiga öll ættir sínar að rekja til Muggu og Spurningar frá Kleifum, sem báðar eru undan dætrum Loga frá Kletti og voru ræktuð af Jóhannesi Stefánssyni frá Kleifum.

Síðastliðin 15 ár hafa þessi hross verið ræktuð saman og hafa þau blandast ákaflega vel. Þau eru eign Gangmyllunar sem er fyrirtæki þeirra Bergs Jónssonar og Olil Amble.

Markmið ræktunarinnar er að ná fram góðu geðslagi og vilja sem er forsenda þess að aðrir hæfileikar sem hesturinn býr yfir fái að njóta sín. Hrossin þurfa að hafa gaman af því að vinna með manninum og orku og getu til að fylgja því eftir. Hvað varðar ganglag er markmiðið að hesturinn búi yfir einhverjum framúrskarandi eiginleikum og hafi alla burði til að verða keppnishross, í hvaða grein sem það kann að vera. 

Berg

Á Bergi á Snæfellsnesi hafa þau Jón Bjarni Þorvarðarson og Anna Dóra Markúsdóttir rekið hrossaræktarbú frá árinu 1994. Við ræktunina er haft til hliðsjónar að rækta viljug og rúm alhliðahross sem jafnframt eru léttbyggð og falleg. Aðal ræktunarhryssur á búinu eru Hrísla frá Naustum, sem gefið hefur sjö 1. verðlauna hross og Orka frá Viðvík. Flest hrossin á búinu er út af þessum hryssum.

Efri-Rauðilækur

Gunnarsstaðir / Hófatak sf.

Á Gunnarsstöðum í Þistilfirði hafa þau Fjóla Runólsdóttir og Jóhannes Sigfússon ræktað hross saman frá árinu 2004 og frá 2009 undir merkinu Hófatak sf. Ræktunin er umfangslítil, 4-6 folöld fæðast á ári, bæði á Gunnarsstöðum fyrir norðan og á Minni-Völlum fyrir sunnan þar sem nokkrar hryssur eru í folaldseign. Ræktunarhryssurnar eru nær allar út af Andvara frá Ey og eða Ófeigi frá Flugumýri, en í móðurlegg út af Spök í Hafrafellstungu 2 einnig Drottningu og Öldu, sem Páll á Kröggólfsstöðum gaf Fjólu á sínum tíma. Nefna má hross sem fram hafa komið í keppni og/eða kynbótadóm undanfarin ár t.d. Sprettu frá Gunnarsstöðum og Trú og Kolgrímu frá Minni-Völlum. Einnig er Hringur frá Gunnarsstöðum undan hryssunni Ölmu Rún frá Skarði en ræktaður af Ragnari Sigfússyni, bróður Jóa. 

Öll hross eru tamin heima á búinu af eigendum ásamt góðum hjálparliðum. Helstu markmið eru að rækta vel gerð og léttvíg hross sem henta vel til útreiða og eru þokkalega pelafær í göngum og ferðafélögum. Einnig njóta þeirrar lífsfyllingar sem öll samskipti við hrossin gefur og þeirrar vongleði sem nýfætt ungviði veitir. 

Í kvöld fara fram ræktunarbússýningar en þær hefjast kl. 19:00 en tíu ræktunarbú taka þátt, Ketilsstaðir/Syðri Gegnishólar var boðið að taka þátt en þau voru valin ræktunarbú ársins í fyrra og keppnishestabú ársins. Önnur hrossaræktarbú eru Berg, 

Hafsteinsstaðir 

Íbishóll

Á Íbishóli fer fram hrossarækt ásamt tamningum og þjálfun. Magnús Bragi Magnússon og Elisabeth Jansen búa þar og starfa ásamt því að Elisabeth kennir á Hólum.

Kjarnholt I

Kjarnholt I er staðsett í uppsveitum Árnessýslu, nánar tiltekið skammt frá Gullfossi og Geysi. Að Kjarnholtum I hefur verið stunduð hrossarækt í tugi ára. Frá 1974 hefur Magnús Einarsson ræktað hross frá Kjarnholtum I, og Guðný Höskuldsdóttir ásamt honum frá 1990. Aðaláherslan í ræktuninni hefur verið á kynbótahross, alhliða ganghross með miklu gangrými og mikilli getu á öllum gangi, mýkt ,skýr og afmörkuð gangskil og óttalausu og meðfærilegu geðslagi. Vegna þessara áherslna hafa hrossin oft verið seinni til í tamningu, en bæta alltaf við sig eftir því sem aukinn styrkur leyfir, og eru komin með fullan styrk þetta 7-8 vetra gömul. Hross fædd að Kjarnholtum I má finna víða í ættum hátt dæmdra kynbótahrossa um allt land, svo ræktunin hefur skilað sér vel út í ræktunarstarfið. Búið hefur því náð þeim tilgangi sínum að skila einhverju til íslenskrar hrossaræktar. Á búinu fæðast 6-7 folöld á ári í dag. 

Stóra-Vatnsskarð / Kvistir, Ölfusi

Ávalt hefur verið sótt í góða aðkomu hesta til að bæta stofnin og teljum við að oft hafi vel til tekist. Mesti árangur okkar í ræktun náðum við á LM2008 þegar Lukka frá Stóra-Vatnsskarði náði þeim merka áfanga að vera hæst dæmda kynbótahross allra tíma þegar hún hlaut 8,46 fyrir sköpulag 9,18 fyrir kosti og 8,89 í aðaleinkunn. Enn er Lukka með hæsta dóm allra hryssa sem komið hafa í dóm og hún hefur skilað okkur 8 afkvæmum sem öll lofa góða.  

Varmilækur

Ábúendur á Varmalæk eru Björn Sveinsson og Magnea Kristjana Guðmundsdóttir. Björn hóf að rækta hross á Varmalæk árið 1970, helstu ættmæður búsins í dag eru þær Kolbrún frá Sauðárkróki og Hrafnhildur frá Varmalæk. Á Varmalæk er öll aðstaða til hestamennsku eins og best verður á kosið, frábært hesthús, reiðhöll og landgæði mikil, þar er líka rekin hestatengd ferðaþjónusta. 

Vatnsleysa

Björn og Arndís rækta hross sem kennd eru við Vatnsleysu í Skagafirði. Hrossin hafa lengi verið þekkt fyrir rými, fas og fótaburð.

Ytra-Vallholt

Í Ytra-Vallholti er ásamt sauðfjárrækt, stunduð hrossarækt, tamningar og sala. Flestöll hrossin á bænum eru nú komin út af hryssunni Kolfinnu frá Ytra-Vallholti, dóttur Kolfinns frá Kjarnholtum og Stjörnu frá Ytra-Vallholti. Á bænum fæðast 4-5 folöld á ári og er markmiðið að rækta nýtanleg hross, hvort sem eru kynbóta, keppnis eða reiðhestar.