mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sýnikennsla reiðmeistara í tísku

2. febrúar 2011 kl. 11:31

Þórarinn Eymundsson á Krafti frá Bringu á HM2009 í Sviss.

Tóti Eym á Króknum í kvöld

Sýnikennsla í tamningum og reiðmennsku nýtur mikilla vinsælda nú um stundir. Er í rauninni hægt að líkja því við tískubylgju. Í hverri viku eru nú auglýstar ein til tvær, og jafnvel fleiri sýnikennslur um allt land. Má í því sambandi nefna nöfn  eins og Unn Krogen, Sigurbjörn Bárðarson, Guðmar Pétursson, Mette Mannseth, Ísólfur Líndal, Anton Níelsson og Þórarinn Eymundsson.

Hver reiðkennari hefur þó sinn háttinn á. Sumir eru eingöngu með fyrirlestur og síðan sýnikennslu þar sem þeir ríða á hesti og útskýra hvað liggur að baki þjálfunar og stjórnunar á hestinum. Aðrir blanda sýnikennsluna með reiðkennslu þar sem nokkrir nemendur eru teknir inn sem hluti af sýnikennslunni.

Engum blöðum er um að fletta að þetta kennsluform er bæði skemmtilegt og gagnlegt. Reiðkennarinn kemur mun meira af efni til skila á stuttum tíma og áhorfendur fá upplýsingar um „meistarann“ sem þeir fá ekki á hefðbundnu reiðnámskeiði. Annmarkinn er hins vegar sá að áhorfandinn (nemandinn) fær ekki þá verklegu leiðbeiningu og þjálfun sem hann fær á hefðbundnu námskeiði.

Í þessu sambandi má minna á að tamningameistarinn Þórarinn Eymundsson (Tóti Eym) verður með sýnikennslu í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki í kvöld, miðvikudag, klukkan 20.00. Þar mun hann taka fyrir mismunandi hestgerðir og fara yfir hvernig hann leysir úr algengum vandamálum sem geta komið upp við þjálfun hesta.