fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svo lengi lærir sem lifir-

3. mars 2011 kl. 17:39

Svo lengi lærir sem lifir-

Kjarnakonan Aðalheiður Auðunsdóttir er fjörug hestakona á sjötugusta aldursári. Hún nemur nú fjórða knapamerkjanámskeiðið hjá Sigrúnu Sigurðardóttur hjá hestamannafélaginu Gusti í Kópavogi og fer í 7-10 daga hestaferðir á hverju ári.

„Ég sá hvað fólk skemmti sér vel á námskeiðunum og langaði að vera með. Þau eru líka vel uppbyggð og hef því setið þau á hverju ári síðastliðin fjögur ár,“ segir Aðalheiður.

Hún segist líka vel við þá nálgun við hestinn sem kennd er á knapamerkjanámskeiðum. „Mér finnst gott hvernig öll stjórnun byggir á því að hesturinn skilji, með notkun fínna bendinga. Það gerir einfaldlega hestamennskuna skemmtilegri að nálgast hestinn á þennan hátt,“ segir hún.

Aðalheiður sem er fædd og uppalin í Reykjafirði við Ísafjarðardjúp segist hafa alist upp á hestbaki en hafi svo dottið úr sportinu þegar hún flutti til Reykjavíkur. En þegar dóttir hennar, Gréta Guðmundsdóttir, kolféll fyrir hestamennskunni dró hún móður sína með sér. Í vetur eru þær mæðgur með sjö hross á húsi og því nóg að gera hjá Aðalheiði.

En það dugar ekki að stunda hestamennsku eingöngu að vetri til. Á hverju sumri síðastliðin 20 ár hefur Aðalheiður farið í 7-10 daga hestaferðir og hefur hún þá farið víða um land og segist hafa kannað hérumbil alla kima Íslands, nema Austfirði. Aðalheiður hjálpaði við gerð heimasíðunnar Icehorse Experience síðasta sumar og í sumar stefnir hún að sjálfsögðu á skemmtilega ferð.

Eiðfaxi dáist af krafti og metnaði Aðalheiðar og óskar henni góðra ferða í sumar!