föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svissneska meistaramótið

30. júní 2019 kl. 13:30

Randalín og Finnbogi.

Um helgina fór fram Svissneska meistaramótið í hestaíþróttum og ætti það því að skýrast á næstu dögum hvaða knapa og hesta Sviss sendir til leiks á heimsmeistaramótið

 

Miðað við niðurstöður mótsins má ætla að Svisslendingar geti stillt upp sterku liði en hér verður fjallað um helstu afrek mótsins.

Keppni í fimmgangi var spennandi. Að lokinni forkeppni var Silvia Ochsenreiter-Egli í forystu með 7,20 í einkunn. Keppnishestur hennar er hinn gamalreyndi Heljar frá Stóra-Hofi. Skammt undan var Oliver Egli með hinn litfagra Birki frá Vatni. Hulda Gústafsdóttir keppti lengi vel á Birki og varð m.a. Íslandsmeistari í fimmgangi árin 2014 og 2016. Það fór þó svo í úrslitum að Oliver Egli sigraði með 7,40 í einkunn en jafnar í 2.-3.sæti urðu Silvia og Heljar og Mara Staubli og Hlébarði frá Ketilsstöðum með 7,36 í einkunn.

Ladina Sigurbjörnsson-Foppa sigraði gæðingaskeið á Styrla frá Skarstad með einkunnina 8,59. Styrla er undan Þjark frá Kjarri og Síríus frá Kílhrauni og er reynd keppnishryssa í skeiði. Þetta par keppti til að mynda á síðasta heimsmeistaramóti en árangur þeirra núna er betri en nokkurn tímann og því verður spennandi að sjá framhaldið hjá þeim.

Fjórgang meistara sigraði Andrez Balz á Balda frá Feti. Níu vetra gamall geldingur undan Kraft frá Efri-Þverá og Brokey frá Feti. Andrea var í forystu að lokinni forkeppni með í einkunn 7,50 en í úrslitum var einkunn hennar 7,97.

Skagfirðingurinn Bjarni Jónasson sigraði í tölti meistara á Randalín frá Efri-Rauðalæk, hryssa sem Bjarni þekkir vel og keppti á hér heima með góðum árangri. Randalín keppti fyrir Íslands hönd ásamt Finnboga Bjarnasyni á HM 2017 í Hollandi. Bjarni hlaut í forkeppni 7,73 og í úrslitum 8,11. Styrmir Árnason varð í 2.sæti á Eld frá Köldukinn með 7,67 í einkunn og í þriðja sæti varð Ladina Sigurbjörnsson-Foppa á Gloríu frá Skúfslæk með í einkunn 7,50.

Markus Albrecht-Schoch og Kóngur frá Lækjamóti sigruðu keppni í 100 metra skeiði á tímanum 7,48 sekúndum. Þeir voru einnig hlutskarpastir í 250 metra skeiði en tími þeirra var 21,95 sekúnda.

Eiðfaxi mun flytja fréttir af liðsskipan Svisslendinga fyrir heimsmeistara mótið þegar þau tíðindi berast.