fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sviftingar á HM í Austurríki

4. ágúst 2011 kl. 15:05

Ekki er öll nótt úti hjá þeim Viðari og Tuma.

Viðar og Tumi eiga ennþá sjens

Það hafa verið nokkrar sviftingar í forkeppni í tölti og fimmgangi á HM í Austurríki. Keppandi sem var ekki valinn í íslenska landsliðið, Vignir Jónasson á Krafti frá Bringu, er efstur inn í úrslit í fimmgangi. Hann keppir fyrir Svíþjóð. Hugsanlega mistök hjá okkar liðstjórum, en það kemur í ljós í úrslitunum.

Annar íslenskur knapi sem keppir fyrir Svíþjóð, Magnús Skúlason á Hraunari frá Efri-Rauðalæk, var talinn sigurstranglegur fyrir mótið eftir gott gengi á tímabilinu. Þeir eru félagar eru hins vegar í B úrslitum og þurfa því að þæfa lengri leiðina ef þeir eiga að ná á toppinn. Miklar líkur eru á að þeir vinni B úrslitin.

Helstu skyttur Íslendinga í fimmgangi, Árni Björn Pálsson á Aris frá Akureyri og Rúna Einarsdóttir á Frey frá Nordsternhof eru í fjórða til fimmta sæti. Haukur Tryggvason á Baltasar frá Freyelhof varð hins vegar að draga sig út úr keppni þar sem hesturinn komst ekki í gegnum heilbrigðisskoðun.


Hafliði Halldórsson spáði rétt um að Karly Zingsheim yrði erfiður viðureignar í töltinu á hinum stóra og fagra Degi, sem enginn veit hvaðan er. Þeir eru efstir inn í úrslit. Engir aukvisar þar á ferð, frábær þjálfari og reiðmaður Karly.

Jóhann R. Skúlason á Hnokka frá Fellskoti, sem keppir fyrir Ísland,  stóð undir væntingum í töltinu og er annar inn í úrslit, þótt ekki séu einkunnirnar jafn glæsilegar og í reiðhöllinni í Flyinge á dögunum. Sérfræðingar Hestablaðsins segja hins vegar að þeir félagar séu í uppsveiflu og leikslok í töltinu séu alls ekki ráðin.

Hinrik Bragason og Sigur frá Hólabaki komu á óvart og eru þriðju inn í úrslit. Frábær árangur og greinilegt að þeir félagar eru ennþá að finna nýja fleti í samspilinu sem fleyta þeim upp á við.

Viðar Ingólfsson á Tuma frá Stóra-Hofi, helsta tromp Íslendinga í tölti fyrir mótið, átti greinilega ekki góðan dag í forkeppninni. Nema framsetningin hafi einfaldlega ekki fallið í kramið hjá erlendu dómurunum á sama hátt og hér heima. Hann er ellefti og þar með ekki inni í B úrslitum.

Þess ber þó að geta að til undantekninga heyrir á HM að keppandi, eða keppendur, hafi ekki dregið sig út úr keppni í úrslitum í tölti eftir að staðan eftir forkeppni í fjórgangi er ljós. Oftast eru einhverjir keppendur í fjórgangsgreinum sem meta stöðu sína þannig að betra sé að einbeita sér að annarri greininni, þótt þér séu komnir í úrslit í báðum. Það er því ekki öll nótt úti enn hjá þeim Viðari og Tuma.