laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sveinn Ragnarsson doktor með láði

Jens Einarsson
7. janúar 2010 kl. 10:39

Varði doktorsritgerð í fóðurfræði í Svíþjóð

Sveinn Ragnarsson lektor við hestafræðideild Háskólans á Hólum varði þann 18. desember síðastliðinn doktorsritgerð sína við Sænska landbúnaðarháskólann (SLU) í Uppsölum með láði. Ritgerðin sem ber titilinn Digestiblility and Metabolism in Icelandic Horses Fed Forage-only Diets greinir frá niðurstöðum rannsókna Sveins á fóðurnýtingu íslenska hestsins. 

Ritgerðin fjallar um áhrif sláttutíma, fóðurmagns og hestakyns á meltanleika og efnaskipti í hestum. Meginniðurstöður sýndu fram á neikvætt samband milli sláttutíma og meltanleika gróffóðurs. Einnig hafði aukið fóðurmagn neikvæð áhrif á meltanleikann. Enginn munur var á meltingu íslenskra og Standardbred hesta en munur var á blóðefnum milli kynjanna. Viðhaldsþarfir íslenskra reiðhesta fyrir meltanlega orku og meltanlegt prótein reyndust sambærilegar við alþjóðleg viðmið. Við doktorsvörnina, sem fór fram í Uppsölum í Svíþjóð, voru komnir saman margir af fremstu vísindamönnum á sviði fóðurfræði hesta. Andmælandi Sveins var Manfred Coenen prófessor við dýralæknadeild Háskólans í Leipzig í Þýskalandi en hann er sérfræðingur í fóðurfræði hrossa og nýtur mikillar virðingar á því sviði.

Sveinn hlaut lof frá andmælenda og prófdómurum fyrir vel unnar og athyglisverðar rannsóknir og gott skipulag og úrvinnslu gagna. Við vörnina vakti hátt orkugildi íslensks rúlluheys athygli og sé það snemmslegið jafnast orkugildi þess á við kjarnfóður. Rannsóknir Sveins veita mikilvægar upplýsingar um fóðurnýtingu og fóðrun íslenskra hesta og munu nýtast hestamönnum bæði hér á landi sem erlendis.

Sjá meira á: www.holar.is