sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svartur allur

16. janúar 2015 kl. 17:00

Svartur frá Unalæk, knapi Þórður Þorgeirsson.

Skeiðsnillingurinn á 575 afkvæmi.

Stóðhesturinn Svartur frá Unalæk er allur. Hann fórst í heimalandi sínu, Danmörku, í ágúst sl. samkvæmt upplýsingum á WorldFeng. Svartur var undan Kjarval frá Sauðárkróki og Fiðlu frá Snartarstöðum, undan Ófeigi frá Hvanneyri.

Svartur vakti strax athygli þegar hann kom fram á stóðhestastöðinni í Gunnarsholti 1992. Þá hlaut hann 8,16 í aðaleinkunn og var efstur fjögurra vetra hrossa. Árið eftir kom hann aftur fram og fékk þá 8,70 fyrir kosti. Á landsmóti 1994 bætti hann enn um betur og fór í 8,90 fyrir hæfileika, fékk þá 10 fyrir skeið, 9,5 fyrir vilja og 9,0 fyrir fegurð í reið. Stóð hann þar annar í röð stóðhesta sex vetra og eldri. Svartur hlaut svo fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmótinu 1998.

Svartur var seldur til Danmerkur árið 2000 en eigandi hans var Annette Andersen.Svartur átti 576 skráð afkvæmi. Hæst dæmd af þeim eru Númi frá Þóroddsstöðum (ae. 8,66), Akur frá Kanastöðum (ae. 8,44), Askur frá Solholt (ae. 8,24), Þór frá Prestsbakka (ae. 8,24) og Þyrla frá Ragnheiðarstöðum (ae. 8,24).

Nánar verður fjallað um áhrif Svarts frá Unalæk í næsta tölublaði Eiðfaxa. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.