miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Svakalegt adrenalín-kick að ríða skeið"

25. október 2013 kl. 13:26

Teitur er reyndur skeiðknapi og fer hér mikinn á Jökul frá Efri-Rauðalæk í vor. Ljósm. Jón Björnsson

Nemendur á 2. ári við Hólaskóla fást við mismunandi verkefni

Nemendur á 2. ári við Hólaskóla skiluðu af sér tamninga- og þjálfunarhrossum um síðustu helgi og héldu svo í nokkurra daga haustfrí. Við komuna aftur á Hóla var sérstök örkennsla í skeiði þar sem nemendur fengu bæði bóklega og verklega kennslu hjá Þorsteini Björnssyni, ásamt því auðvitað að prófa þá þaulreyndu skeiðhesta sem Hólaskóli er með. Þetta er stutt kennsla sem miðar að því að veita nemendum betri innsýn í skeið, áður en nemandinn þarf að geta lagt á skeið á þriðja ári.

Nemendurnir eru auðvitað misreyndir skeiðknapar og sumir hafa þónokkra reynslu í að ríða og þjálfa skeið, á meðan þetta er nýtt fyrir öðrum. Hins vegar eiga nemendurnir það allir sameiginlegt að vera gríðarlega áhugasamir og spenntir yfir skeiðkennslunni.
Skólahestarnir í skeiðinu eru heldur ekki af verri endanum, en þetta eru allt hross sem eru mikið þjálfuð og kunna allt upp á hár, ef rétt er beðið um. Sem dæmi má nefna um hesta sem eru í hópi kennaranna eru Þúsöld og Drift frá Hólum, sem báðar hafa náð góðum tímum í skeiðkeppnum og höfðinginn Kjarni frá Lækjamóti ásamt helling af ungum og vel vökrum hrossum.
Greinilegt er að skeiðkennslan er vinsæl viðbót hjá nemendum, sem ber vitni um að áhuginn fyrir skeiðgreinum hefur sífellt verið að aukast undanfarin ár, eftir að hafa verið í nokkurri lægð um árabil. 

 

Hanna Rún Ingibergsdóttir hefur aðeins verið að prófa sig áfram í skeiðgreinum á undanförnum árum og hefur því nokkra reynslu við að ríða skeið. Aðspurð um hvort búið séð að vera gaman í skeiðkennslunni segir hún það vera frábært.

,,Þetta er búið að vera mjög gaman og þetta er eitthvað sem maður kemst ekki í neins staðar annars staðar á Íslandi held ég, að fá svona skipulagða kennslu á mörgum ólíkum skeiðhestum. Að fá að prófa alla þessa reyndu skeiðhesta er virkilega lærdómsríkt en þeir eru frábærir kennarar og í raun bestu kennararnir. Skeiðið er mjög spennandi gangtegund að mínu mati, þetta er svo svakalega gaman og adrenalínkickið sem maður fær út úr því að ríða góðan skeiðsprett er svakalegt. Ég held að allir hafi gott af því að eiga einn góðan skeiðhest í húsinu hjá sér til að halda geðheilsunni og hafa gaman af”.

 

Teitur Árnason er mikið reyndur keppnisknapi sem mikið hefur tekið þátt í bæði hringvallar- og skeiðgreinum í gegnum tíðina. Hann viðurkennir að honum finnist rosalega gaman að ríða skeið og að sú gangtegund heillar hann einna mest.

,,Það er búið að vera frábært að fara í þessa skeiðtíma. Þetta er skemmtileg viðbót við námið hjá okkur og öðruvísi en venjulegir reiðtímar hingað til. Þetta snýst um að maður treysti sér til að ríða fram, sé fljótur að hugsa og gefi ábendingar á réttum tíma. Þessi kennsla eykur líka skilning manns á skeiði, hvað er að gerast þegar hesturinn styttir sig eða fer að flandra og hvernig hægt er að bregðast við því. Skólahestarnir eru auðvitað frábærir og mikið þjálfaðir. Maður er alltaf að læra meira og hver hestur víkkar sjóndeildarhringinn hjá manni. Maður þarf bara að prófa sig áfram og sjá hvað virkar og hvað ekki. Maður verður að bara að halda áfram að þróast í öllu sem maður er að gera í þessari hestamennsku “