mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svaðilför í Kerlingafjöllum

1. júlí 2014 kl. 20:30

Sigmundur Jóhannesson fararstjóri.

100 hestar fóru í eigið ferðalag.

Hópur þýskra kvenna hélt í 6 daga skemmtiferð frá Syðra-Langholti á dögunum. Þegar hópurinn kom í Kerlingafjöll var áð og hestar og menn tóku hvíldinni fegins hendi. Allt var með kyrrum kjörum frameftir nóttu en kl. 06.00  að morgni þegar fararstjórinn, Sigmundur Jóhannesson, fór út til að athuga með hrossin greip hann í tómt. Gerðið var tómt og allir 100 hestarnir farnir til baka og voru á heimleið niður Hreppamannaafrétt.

Rekstrarfólk hélt þegar af stað til leitar á bíl og gerðar voru ráðstafanir að fá hesta í kerru á móti stóðinu. Til þess kom þó ekki. Haft var samband við Magnús Grímsson á Flúðum og beðinn að leita að stóðinu á flugvélinni sinni. Magnús flaug á móti stóðinu og fann það komið meira en hálfa leið niður að afrétt. Hann snéri stóðinu við, rak það uppí Svínárnes um það leyti er rekstrarfólk kom á staðinn og setti það í gerðið við Svínárnes.

Farþegarnir voru selfluttir frá Kerlingafjöllum í Svínaárnes þar sem ferðinni var haldið áfram og komu glaðar konur til baka með mikla ævintýrasögu að segja.