mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Súperstjörnur á Vindheimamelum

14. júlí 2012 kl. 10:16

Hrímnir frá Ósi er einn þeirra mörgu gæðinga sem þilja munu ganginn á Vindheimamelum á Íslandsmóti 2012.

Flestir bestu knapar og hestar er skráðir til leiks á Íslandsmót fullorðinna í hestaíþróttum, sem haldið verður á Vindheimamelum í Skagafirði um næstu helgi. Frítt er inn á svæðið, frítt á tjaldstæðin og leiktæki frá börn á svæðinu.

Góð skráning er á Íslandsmótið í hestaíþróttum, sem haldið verður á Vindheimamelum í Skagafirði um næstu helgi. Eru skráningar tæplega 250 í hinar ýmsu greinar.  Dagskráin hefst kl: 18:30 fimmtudaginn 19. júlí með knapafundi og eftir hann verður keppt í fyrstu grein mótsins, sem er gæðingaskeið.  

Margir af fremstu knöpum og hestum landsins um þessar mundir eru á skráðir til leiks. Má þar nefna Hinrik Bragason með Smyril frá Hrísum, Artemisiu Bertus með Óskar frá Blesastöðum 1a, Sigurbjörn Bárðarson með Jarl frá Miðfossum og skeiðhestana Óðinn og Flosa, systurnar Rakel og Heklu Kristinsdætur, Eyjólf Þorsteinsson með Háfeta frá Úlfsstöðum og Hlekk frá Þingnesi, Önnu Valdimarsdóttur með Náttar frá Vorsabæjarhjáleigu, Árni Björn Pálsson með Storm frá Herríðarhóli og Guðmund Björgvinsson með Hrímni frá Ósi.

Einnig eru skráðir öldungarnir Stefán Friðgeirsson með Dag frá Strandarhöfði og Trausti Þór Guðmundsson með Tinna frá Kjarri, en þeir munu spreita sig í fimmgangi með þessa hesta. Guðmundur Björgvinsson mun einnig keppa við þessa karla í fimmangi með Snævar Þór frá Eystra-Fróðholti, sem datt út í milliriðli í A flokki á LM2012 þegar honum fataðist skeiðið. Og ekki má gleyma Hauki Baldvinssyni með Fal frá Þingeyrum í þessari grein.

Margir fleiri snillingar eru skráðir og ráslistar verða birtir í næstu viku. Rétt er að minna á að frítt er inn á svæðið, frítt á tjaldstæðin og leiktæki frá börn á svæðinu.

Dagskrá Íslandsmótsins er hér birt með fyrirvara um breytingar:

Fimmtudagurinn 19. júlí
18:30 Knapafundur
20:00 Gæðingaskeið

Föstudagurinn 20. júlí
09:00 Fimmgangur 1. – 30.
12:10 Hádegishlé
13:00 Fimmgangur 31. -54.
15:30 Kaffihlé
16:00 Fjórgangur 1. – 30.
19:10 Matarhlé
20:00 Fjórgangur 31. – 44.

Laugardagur 21. júlí
09:00 Tölt T1 1. – 36.
12:10 Hádegishlé
13:00 Tölt T1  37. – 48.
14:10 Tölt T2  1. – 18.
15:45 Kaffihlé
16:30 B úrslit Fjórgangur
17:00 B úrslit Fimmgangur
17:45 150 m og 250 m skeið – Fyrri umferð
18:30 Grill í skálanum
20:30 100 m flugaskeið
21:15 B úrslit Tölt

Músik í Skálanum til 11:30.
Hestamannaball í Miðgarði með Hljómsveitinni Spútnik

Sunnudagur 22. júlí
11:00 150 m og 250 m skeið – Seinni umferð
12:00 Matarhlé
13:30 Tölt T1 Beinútsending hefst
14:00 Tölt T2
14:30 Fjórgangur
15:00 Fimmgangur
15:30 Mótsslit