fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sunnlendingar sýna hestakost sinn

24. apríl 2015 kl. 22:55

Tveir glæsilegir fulltrúar heimsmethafans Lukku frá Stóra Vatnsskarði koma fram á Ræktun 2015. Hér er Lukku-Láki frá Stóra Vatnsskarði, sonur Lukku. Knapi er Hans Þór Hilmarsson.

Fulltrúar frá ræktunarbúunum Auðholtshjáleigu, Leirubakka, Kjartansstöðum og Eylandi koma fram laugardagskvöld.

Sýningin Ræktun 2015 verður haldinn í Fákaseli næstkomandi laugardagskvöld. Þar munu koma fram margir þekktir gæðingar eins og fram kemur í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar.

„Meðal atriða eru afkvæmi Óms, afkvæmi Sveins Hervars og afkvæmi Kiljans. Þá verða fulltrúar frá ræktunarbúunum Auðholtshjáleigu, Leirubakka, Kjartansstöðum og Eylandi. Tveir glæsilegir fulltrúar heimsmethafans Lukku frá Stóra Vatnsskarði mæta á staðinn ásamt glæsihestunum Herkúles frá Ragnheiðastöðum, Lexus frá Vatnsleysu, Hryn frá Hrísdal, Hrannari frá Flugumýri og Sjóð frá Kirkjubæ.  

Sunnlendingar eiga líka einstaklega góð og efnileg klárhross sem og alhliðahross sem munu kynna sig á Ræktun og má nefna frábæra gripi frá Þúfu og Feti. Af öðrum atriðum má nefna að skeiðfélagið leikur listir sínar, við sjáum fulltrúa FT og nemendur Hólaskóla koma fram.“

Sýningin hefst kl. 20:00 á laugardagskvöld og fer forsala miða fram í Baldvin og Þorvaldi, Fákaseli, Top Reiter og Líflandi. Einnig er miðasala við innganginn. Hlaðborðið í Fákaseli opnar kl 18.00 með veislumat. Miðaverð er kr. 2.500, frítt fyrir 12 ára og yngri.