miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Suðurlandsdeildin - Parafimi

11. febrúar 2017 kl. 11:35

Stórmót Geysis

Vignir Siggeirsson tekinn tali um suðurlandsdeildina og nýja keppnisgrein

Næstkomandi þriðjudagskvöld verður keppt í nýrri keppnisgrein í Suðurlandsdeildinni og er það parafimi. Í þessari deild keppa bæði atvinnu og áhugamenn og má lesa meira um deildina og reglur parafiminar ef smellt er hér.

Mikil spenna er fyrir þessari nýju keppnisgrein og því ákvað blaðamaður Eiðfaxa að heyra hljóðið í einum liðsstjóra deildarinnar, Vigni Siggeirssyni hrossaræktanda og tamningamanni að Hemlu II.
Vignir er enginn nýgræðingur í hestaíþróttinni og hefur um árabil verið í röð fremstu knapa auk þess að vera ötull í félagsmálum fyrir okkur hestamenn.

Vignir er liðsstjóri sameiginlegs liðs Hemlu/Hrímnis/Strandarhöfuðs.
Með honum í liði eru Stella Sólveig Pálmadóttir tamningamaður og bústjóri í Strandarhöfði.
Hrönn Ásmundsdóttir tengdamóðir Stellu, sem sá í suðurlandsdeildinni tækifæri til þess að byrja að keppa að nýju. Matthías Elmar Tómasson ungur og upprennandi knapi sem aðstoðar við tamningar bæði í Strandarhöfði og á Ármóti og Katrín Diljá Vignisdóttir dóttir Vignis sem er á sínu fyrsta ári í unglingaflokk og tekur þátt í suðurlandsdeildinni með það að markmiði að ávaxta í reynslubankanum.
Það má því segja að liðið sé skipað knöpum með mismunandi grunn í hestamennskunni og er aldurinn frá 14 ára og upp í fólk á besta aldri.

En hvað finnst Vigni um þessa nýju deild. „Strax og þessi hugmynd kom upp um að stofna keppnisdeild í Rangárhöllinni varð ég mjög áhugasamur og fór að leggja grunninn að því að stofna lið til þátttöku. Það sem mér þótti þessi deild hafa fram yfir þær fjölmörgu keppnisdeildir, sem eru víða um land, er að í henni taka þátt bæði harðkjarna atvinnumenn og lítið vanir keppnisknapar. Ég sá því fyrir mér að hún myndi höfða til margra og við myndum fá mikið af  áhorfendum sem ekki mæta á þessar venjulegu uppákomur í reiðhöllum. Þ.a.l. held ég að deildin sé gífurlega góð viðbóð við hesta og mannlífið fyrir austan Þjórsá.“

Framundan er keppni í parafimi og Vignir segir okkur sína skoðun á þessari nýju keppnisgrein. „Hestaíþróttir hafa verið stundaðar á Íslandi í tugi ára og er venjan að keppa í hefðbundunum keppnisgreinum sem eru tölt,fjórgangur og fimmgangur og er það vel. Það hefur þó lítið orðið um nýjungar í keppnisgreinum. Mér finnst alltaf ofsalega spennandi þegar fólki dettur eitthvað nýtt í hug og sérstaklega keppnisgrein eins og parafimina sem er bæði mikil áskorun fyrir knapann að ríða og ætti að vera skemmtileg fyrir áhorfendur á að horfa. Mér líður því soldið eins og ég sé að fara að keppa í fyrsta skipti og það er mjög góð tilfinning. Ég hvet alla til þess að koma austur í Rangárhöll á þriðjudaginn og fylgjast með skemmtilegri nýrri keppnisgrein".

Með þessum orðum kveðjum við Vigni og óskum honum um leið góðs gengis í Suðurlandsdeildinni í vetur.