föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Styttist í uppskeruhátíðina

6. nóvember 2013 kl. 20:18

Uppskeruhátíð hestamanna 2012

Happadrætti og húllumhæ

Enn eru til miðar á Uppskeruhátíð hestamanna sem fram fer á Broadway á laugardagskvöldið kemur og hefur stemningin stigmagnast síðustu vikuna. Það eru fjölmargir hópar tilbúnir með glimmerið og til í tuskið á laugardagskvöldið.

Í ár verður happdrætti og verður dregið úr seldum miðum. Hægt er að vinna gjafabréf frá Hótel Sögu, út að borða á Einari Ben og 2x vikupassa á Landsmót 2014. Aldeilis búbót það!

Stemningin verður hátíðleg framan af; verðlaun afhent, dýrindis þriggja rétta máltíð borin á borð fyrir gesti og síðan brestur á dúndrandi stuð með hinum eina sanna Helga Björns, sem mun hafa Reiðmenn vindanna sér til halds og trausts fram eftir nóttu.

Hestamenn kunna svo sannarlega að skemmta sér og það verður pottþétt glatt á hjalla á laugardagskvöldið kemur.

Þeim sem enn eiga eftir að tryggja sér miða, er bent á að pússa ballskóna og túbera hárið, því miðasalan er opin milli 13 og 16 og í síma 533 1100 á Broadway.