mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Styttist í gæðingafimina

31. janúar 2014 kl. 16:26

Sigurður og Loki sigruðu gæðingafimina í fyrra

Það verður boðið upp á nýbreytni frá árunum áður.

Nú er spennan að magnast aftur eftir vel heppnað fjórgangsmót Meistaradeildar í síðustu viku. Næst á dagskránni er Gæðingafimi og fer keppnin fram fimmtudaginn 6.febrúar og hefst keppni kl.19.00. Við hvetjum fólk að mæta til að horfa á þessa mjög svo spennandi keppnisgrein sem nýtur nú vaxandi vinsælda enda reynir mjög á samspil knapa og hests. 

Við munum bjóða uppá þá nýbreytni á fimmtudaginn að vera með sýnikennslu fyrir áhorfendur áður en keppni hefst. Sýnikennslan hefst kl. 18:30 og höfum við fengið til liðs við okkur þá Anton Páls Níelsson og Ólaf Andra Guðmundsson sem ætla að leiða okkur í allan sannleikan um hvað gæðingafimi snýst.  Þetta er upplagt tækifæri fyrir áhorfendur til að læra að "lesa" sýningarnar. 

Gæðingafimin er krefjandi keppnisgrein þar sem reynir á ganghæfileika, þjálfunarstig hests og knapa, fegurð, kraft og glæsileik. Sýningin er spuni og ræðst árangur m.a. af útfærslu og frumkvæði knapa. Sýnandi fær 3,5 - 4 mínútur til þess að sýna það besta sem knapi og hestur hefur uppá að bjóða og er dæmdur af sex dómurum. Þrír dómarar gefa einkunnir fyrir gangtegundir og flæði og aðrir þrír dómarar dæma æfingar og fjölhæfni.

Forsala aðgöngumiða er hafin í verslunum Líflands, Topreiter og hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi.  Aðgangseyrir á mótið er 1.500 kr. fyrir 13 ára og eldri, en 500 kr. fyrir 12 ára og yngri.

Keppendur eru í óða önn að fínpússa prógrömm sín fyrir fimmtudaginn og má gera ráð fyrir hverri glæsisýningunni á fætur annarri á gólfi hallarinnar í Fákaseli (Ölfushallarinnar)

Í fyrra var það Siggi Sig, úr liði Lýsis, sem sigraði gæðingafimina á Loka frá Selfossi, í öðru sæti urðu þeir Guðmundur Björgvinsson og Hrímnir frá Ósi og í þriðja sæti þau Olil Amble og Kraflar frá Ketilstöðum. 

Það veður spennandi að sjá hvaða pör bæta til leiks í næstu viku.  Reikna má fastlega við að Siggi mæti með Loka til að verja titilinn og svo verður spennandi að sjá hvort Guðmundur tefli Hrímni fram.  Olil mun mæta með nýjan hest þar sem Kraflar er seldur úr landi.  Sigurvegar úr fjórganginum frá síðustu viku, þeir Ólafur Ásgeirsson og Hugleikur mæta saman til leiks og verður spennandi að sjá hvernig sá samleikur þeirra verður í gæðingafimi. 

Allavega alveg ljóst að mörg flott pör munu mæta til leiks og að venju má búast við "konfekti fyrir augun" fyrir áhorfendur. 

Ráslistar Gæðingafiminnar verða birtir snemma í næstu viku.