föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Styrktarmót Léttis á laugardag

1. febrúar 2011 kl. 17:44

Styrktarmót Léttis á laugardag

Þá er tímabil móta að renna upp og hestamenn og keppniskempur ættu því að fara að fylgjast vel með dagskrá sinna hestamannafélaga og nágrannabæjarfélaganna. Eiðfaxa barst tilkynning um Styrktarmót sem verður haldið norður á Akureyri á laugardaginn 5. febrúar, þar sem hestamannafélagið Léttir mun standa fyrir Firmakeppni í Top Reiter höllinni.

Andrea Margrét Þorvaldsdóttir, formaður Léttis, sagði í samtali við Eiðfaxa að mótið væri haldið til stuðnings Jóni Birni Arasyni og fjölskyldu sem hafi reynst félaginu vel. “Jónbi er alltaf tilbúin til að hjálpa okkur þegar það vantar smið, t.a.m. vann hann dag og nótt, ásamt fleirum, að standsetningu Top Reiter hallarinnar. Nú eru hins vegar erfiðir tímar hjá fjölskyldu Jónba vegna alvarlegra veikinda og vill félagið því reyna að létta undir með þeim á þennan hátt.”

Keppt verður í flokki barna, unglinga og flokkunum minna vanir og meira vanir. Hægt er að senda skráningu á póstfangið lettir@lettir.is og taka þarf fram nafn knapa og kennitölu, nafn hests og IS númer. Skráningagjald er 1000 kr. fyrir börn og 2000 kr. fyrir fullorðna sem hægt er að leggja inn á bankanúmerið 0302 - 26 - 15839, kennitala 430269-6749.

“Við vonumst eftir góðri þátttöku á mótinu og hvetjum Norðlendinga til að mæta. Opið hús verður í Top Reiter höllinni að móti loknu þar sem Kobbi Jóns heldur uppi fjörinu,” segir Andrea Margrét.