miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Styrkir til stóðhestakaupa úr sögunni

Jens Einarsson
2. nóvember 2009 kl. 14:41

Margir framúrskarandi stóðhestar á leið til útlanda

Fagráð í hrossarækt hefur auglýst eftir umsóknum í Stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins. Árlega eru veittir styrkir úr sjóðnum til hinna ýmsu verkefna. Undanfarin ár hafa það einkum verið rannsóknir á heilbrigði og kynbótum hestakynsins sem hafa hlotið styrki.

Toppar í eigu útlendinga

Upphaflegt markmið sjóðins, og sem er ennþá á dagskrá hans, var þó hugsað til að styrkja hrossaræktarsambönd, eða aðra aðila, til að kaupa úrvals stóðhesta svo þeir yrðu ekki seldir úr landi. Síðasti styrkurinn sem veittur var í þeim tilgangi var, eftir því sem best er vitað, þegar Hrossaræktarsamband Suðurlands keypti Jó frá Kjartansstöðum fyrir miðjan síðasta áratug. Jór var seldur úr landi tveimur árum síðar. Einnig fékk litförótti stóðhesturinn Gjafar frá Eyrarbakka 300 þúsund króna styrk þegar hann náði fyrstu einkunn 2005. Hann hefur nú verið seldur til Noregs.

Margir framúrskarandi stóðhestar hafa verið seldir úr landi undanfarin ár. Allnokkrir eru ennþá í landinu en í eigu útlendinga og gera má ráð fyrir að þeirra bíði utanför fyrr en seinna. Má þar nefna Álf frá Selfossi, Ágústínus frá Melaleiti og Oliver frá Kvistum, sem nýlega var seldur sænskum aðila, Gudula Rudbäck. Óliver hlaut toppeinkunn í einstaklingsdómi á þessu ári og Álfur hefur verið einn eftirsóttasti stóðhestur landsins síðastliðin ár.

Gott að geta selt stóðhesta

Guðlaugur Antonsson segir að engar umsóknir hafi borist til sjóðsins vegna kaupa á stóðhestum í hans tíð, og ekki í tíð Ágústs Sigurðssonar, að því er hann best viti. Hann hefur ekki áhyggjur af að of margir góðir stóðhestar séu farnir úr landi.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé mikið lán fyrir hrossaræktendur að geta selt stóðhesta úr landi fyrir gott verð,“ segir Guðlaugur. „Það rýmir líka fyrir þeim stóðhestum sem áfram eru hér heima. Ég held að engum þætti það gott ef við sætum uppi með alla þessa hesta og margir fengju litla sem enga notkun.

Auðvitað er eftirsjá í ýmsum af þeim hestum sem farnir eru utan. Ég get nefnt hest eins og Álfastein frá Selfossi, sem nú er að koma vel út í kynbótamati fyrir afkvæmi. Hestur sem hefði verið verðugur arftaki föður síns hér heima — og bleikálóttskjóttur að auki. Ég er þó ekki viss um að fagráð hefði tekið undir umsókn um styrk til kaupa á honum á þeim tíma sem hann var seldur. Þá óreyndur hestur.“

Og því má bæta við að frestur til að sækja um í Stofnverndarstjóð íslenska hestakynsins er til 1. desember. Umsóknum skal skilað til: Fagráð í hrossarækt, Bændahöllinni v/Hagatorg, 107 Reykjavík.