laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stórskotalið knapa og hesta

19. mars 2015 kl. 16:36

Viðar Bragason mun mæta til leiks með landsmótsmeistarann Fróða frá Staðartungu, sem hér er setinn af Sigurði Sigurðarsyni.

Stjörnutölt fer fram á laugardagskvöld.

Stjörnutöltið 2015 fer fram á laugardagskvöld í Léttishöllinni. Alls mæta 24 úrvals töltarar til leiks.

Fákasport ætlar að byrja á að bjóða uppá sýnikennslu í gæðingafimi með ný krýndum sigurvegara í gæðingafimi meistaradeildarinnar, Ísólfi Líndal Þórissyni og hefst hún kl. 20:00

Töltkeppnin hefst svo að sýnikennslunni lokinni.

Til mikils er að vinna því 100,000 kr. eru í boði fyrir fyrsta sæti að er fram kemur í frétt frá Létti.

Hér fyrir neðan er ráslistinn og kynning á knöpum og hestum.

1. Norður í Svarfaðardal, sem um var sungið í denn að væri fegurstur Íslenskra dala, er alin upp hnáta ein sem svo sannarlega hefur glatt hjörtu okkar hestamanna með framkomu sinni og fágaðri reiðmennsku. Þessir kostir í fari hennar hafa m.a fleytt henni ALLA LEIÐ, og einmitt á Stjörnutölti 2014 sigraði Anna Kristín Friðriksdóttir svo eftirminnilega á honum Glað sínum frá Grund. Nú mætir sigurvegarinn frá í fyrra með nýjan hest,  Brynjar frá Hofi og freistar þess að verja titilinn.

2. Okkar eini og sanni Baldvin Ari Guðlaugsson er ekki af neinni tilviljun fyrstur nefndur hér. Kallinn að verða fimmtugur og hefur sennilega aldrei verið sprækari. Baddi hefur að ég held alltaf verið með á Stjörnutölti, og  nú þegar við færum það í Léttishöllina, heimavöll Badda lætur hann sig ekki vanta. Hans besta vinkona nú um stundir er hryssa sem heitir Lipurtá og er frá Hóli og þau mæta fersssssk.

3. Þá köllum við til leiks „Okkar“ Steina Björns. Já við Léttismenn eigum Þorstein Björnsson og ætlum að eiga hann áfram, þótt við séum alveg til í að lána Hólaskóla hann eitthvað lengur.  Þorsteinn Björnsson er einn  stórt genabanki uppfullur af hestamönnum eins langt og augað eigir.  Í ættartölu hans eru hestamenn sem aldrei gleymast, nægir að nefna faðir hans, Björn Þorsteinsson, afa hans, Þorstein Jónsson og síðast en ekki síst ömmu hans  Aldísi Björnsdóttur.  Hvort þetta hjálpi Steina á Stjörnutölti á laugardaginn  kemur í ljós þegar hann verður kallaður til leiks á hryssunni Krónu frá Hólum.

4. Þá  er farið að fækka þeim keppendum er kynntir verða hér og sá knapi sem hefur fengið þetta númer úthlutað í þessari kynningu mætir bara á mót með eitt , aðeins eitt markmið..... að vinna. Ungmennafélagsandinn á ekki við hana... það að vera bara með. Ó nei. Þannig hugsar hún ekki.    Líney María  Hjálmarsdóttir kallar ekki allt ömmu sína og við sem þekkjum kellinguna (sorrí) stúlkuna, (ekki ömmuna),  vitum að hvað sem Líney mætir með á Stjörnutölt verður það gott. Líney hefur mikið  hugsað og pælt  hvaða litur hentar best nýja reiðhallargólfinu á Akureyri en  er nú búin að taka þá bráðsnjöllu ákvörðun að koma með hinn rauðstjörnótta Storm frá Draflastöðum til leiks.

5. Þá rennum við okkur á Akureyri aftur og inn í Lögmannshlíðarhverfið  og tökum hús hjá Elfu Ágústsdóttur dýralækni og Höskuldi Jónssyni. Þar á bæ er ekki spurt um gæði hrossa, nóg er af þeim. Það er spurt. Hvað lit vantar.? Grátt skal það vera og Höskuldur Jónsson teflir fram úr eigin ræktun, Huldari frá Sámsstöðum.

6.  Hólaskóli í Hjaltadal hefur mikinn metnað fyrir sinn fulltrúa á Stjörnutölt, og í gær fór fram úrtaka nemenda skólans fyrir þetta eina sæti sem í boði  var.  Baráttan var hörð og mjótt  var á mununum, en eins og alltaf þá er það einn einungis einn sem vinnur. Sá sem ber þann kaleik að verja heiður heils Háskóla í dalnum fagra og það ekkert smáræðis skóla, sjálfs Söguseturs Íslenska hestsins sem og  legstaðar Jóns Arasonar biskupsins er gerður var höfðinu styttri  þann 7. nóvember árið 1550 er: Sigurður Rúnar Pálsson frá Flugumýri og sá drengur ber sko ekkert venjulegt hestamannagen  í æðum sínum. Eins langt og augað eygir angar af hrossalykt í ættartré  hans og gæti ég jafnvel trúað að allt frá Flugumýrarbrennu 22 október árið 1253,  megi tengja þennan dreng og ætt hans við söguna.  Hann ræðst heldur ekkert á garðinn þar sem hann er lægstur og mættir með mikinn sigurvegara til leiks, hestinn  Reyni frá Flugumýri og ef ég man rétt þá sigraði systir Sigurðar, Eyrún Ýr einmitt keppnina Svellkaldar konur í fyrra á þessum hesti svo hér erum við að tala um alvöru.

7. Bárðardalur er bæði langur en um leið ákaflega fallegur dalur sem skerst langt inn í landið eiginlega inn á öræfi. Eftir dalnum rennur Skjálfandafljótið. Á bökkum þess hefur knapi sá er nú er kynntur til leiks oft og einatt riðið gæðingum af öllum stærðum og gerðum enda knapinn kóngur í dalnum. Erlingur Ingvason er svo sannarlega kóngur um stund og trúr því að kórónan verði hans á Stjörnutölti í Léttishöll 2015 mætir hann til leiks á hestinum Takti frá Torfunesi.

8. Sauðárkrókur  hefur langa lengi alið af sér mikla og góða hestamenn og verður það svo örugglega um aldur og æfi. Það er rík hestamannahefð hjá þeim er þar búa og þangað ætlum við að sækja ungann en ansi efnilegan knapa til leiks á Stjörnutöltið hjá okkur. Finnbogi Bjarnason er með mikið hestamannablóð í æðum og hefur sýnt það og sannað að honum er margt til lista lagt, m.a annars sem knapi á Roða frá Garði sem verður keppnishestur hans á þessu fallega marskvöldi þann 21 á Akureyri.

9. Austan Vaðlaheiðar fjallsins sem ver Akureyri fyrir austanáttum eru hestamenn sem hafa ekki hátt né stæra sig af hestakosti sínum. Það er því ekki satt að þingeyingar séu montnir. Hins vegar finnast í þessum landshluta oft og einatt miklir gæðingar og austur á Þórshöfn á Langanesi er hestur er Hektor heitir og er einmitt frá þeim rómaða bæ og knapi hans Reynir Atli Jónsson. Þeir félagar ætla að halda uppi heiðri austanmanna á Laugardagskvöldinu þann 21 mars.

10. Norður í Hörgárdal, á Björgum,  er einhver albesta og glæsilegasta aðstaða til hestamennsku hér Norðanlands. Þar á bæ stundar Viðar nokkur Bragason tamningar og þjálfun sem mest hann má. Viðar er tvöfaldur íþróttamaður ársins hjá Létti og ætlar sér stóra hluti á Stjörnutölti. Til þess ræðst Viðar ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hefur valið hinn stórbrotna A flokks sigurvegara Landsmóts 2012 gæðinginn Fróða frá Staðartungu.

11. Já, þessar konur, þær eru svo sannarlega ómissandi. Hugsum okkur lífið án kvenna,!!!!!! Nei það getum við ekki, og gleðjumst í hvert sinn er þær, þessar elskur vilja koma og vera með okkur í þessum hestaheimi. Þær eru að taka völdin svo víða í þjóðfélaginu, en hvort Helga Árnadóttir á Rún frá Reynistað tekur ÖLL völd á Stjörnutöltinu annan laugardag  er og verður vandi um slíkt að spá.

12. Skapti yngri er óreyndari mjög en ætlar að fylga þeim gamla og kemur ríðandi til leiks á gullfallegum gráum gæðingi, Fannari frá Hafsteinsstöðum. Verið velkomnir báðir tveir á Stjörnutölt í Léttishöllinni 21 mars n.k.

13. Góðan dag og það bara þó nokkuð góðan. Sá sem  næstur er kynntur er snillingur, sagt og skrifað. Um Magga væri hægt að skrifa heila bók og það sennilega í nokkrum bindum talið. En Magnús Bragi Magnússon hefur svo ótalmargt í fari sínu sem minnir okkur á hann karl faðir hans, blessuð sé minning hans, og þetta fas  einmitt gerir Magga yngri svo eftirminnilegan. Þess vegna hefur Magnús þegið boð okkar um að koma á Stjörnutölt og mun stilla sér upp með hryssuna Golu frá Krossanesi.

14. Vestur í henni Húnavatnssýslu er kappi knár sem hefur svo sannarlega verið fyrirferðamikill í hestamennsku víða um land og þótt ekki sé nú aldurinn neitt tiltökuhár á kappanum er eins og hann hafi svei mér þá alltaf verið til. Þótt dágóður spotti sé til Akureyrar þá mætir Tryggvi Björnsson  á Stjörnutölt 2015 uppfullur af væntingum og vonum um stóra sigurinn á hestinum Hlyn frá Haukatungu.

15. Jæja ert‘ekki  alltaf í boltanum? Er von nema spurt sé, Þessi Ísólfur er að einoka öll hestamannamót nú um stundir og vinnur bara allstaðar er hann kemur. En bíðum við, hann á eftir að koma á Stjörnutöltið á Akureyri og þangað ætlar Ísólfur að mæta og tíminn einn mun skera úr um það hvort einhver annar eigi pláss á efsta þrepinu á Stjörnutölti 2015. Ísólfur Líndal Þórisson og Flans frá Víðivöllum fremri.

16. Áfram kynnum við keppendur Stjörnutölts, og nú þann er hefur fengið númerið 8. Ekki er þetta rásnúmer og ekki er þetta úrslitanúmer heldur, en hvort kappi sá er hér er til kallaður sættir sig við að verða fyrirfram bendlaður við B úrslitasæti trúi ég trauðla. Guðmundur Karl Tryggvason er maður orða og verka og þótt ekki sé oft hátt haft, þá er stefnan skýr,  kýr skýr, beint á .................. Þetta veit  gæðingurinn Rósalín frá Efri-Rauðalæk.

17. Stefán Birgir Stefánsson bóndi og hrossaræktandi í Litla-Garði í Eyjafirði kom, sá og sigraði Bautatöltið á dögunum með glæsibrag á hestagullinu Aldísi frá Krossum og mætir með hana kokhraustur og sigurviss til leiks. Stefán Birgir veit hvernig tilfinningin er að standa á hæðsta stalli og ætlar þangað aftur ef ég þekki hann rétt.

18. Hverjum manni fylgir kona, og það meira að segja oft og einatt góð kona og það er einmitt þannig með næsta keppenda er kallaður er á sviðið. Ísólfur og Vigdís - Vigdís og Ísólfur hljómar ákaflega vel og þannig er og hefur það verið. Vertu velkomin í Léttishöllina á Akureyri Vigdís Gunnarsdóttir og Sögn frá Lækjamóti.

19.  Þennan félaga skulum við og getum kallað nýbúa á Akureyri, ekki í neikvæðri merkingu. heldur hitt að hann er svo nýr meðal okkar Léttismanna, og segja verður hverja sögu sanna að ansi hefur nú Gurri fallið vel að púsluspili okkar Léttismanna og er eiginlega akkúrat kubburinn sem við vorum að leita að. Guðröður Ágústsson er hér kallaður til keppni einfaldlega vegna þess að hann vann sér til þess rétt, þegar hann sigraði Nýjarstöltið hjá okkur á hinun litfagra Hnetti sínum frá Valþjófsstað

20. Þá skellum við okkur aftur vestur yfir Öxnadalsheiðina sem er greiðfær nú um stundir þrátt fyrir váleg veður og nemum staðar á Hafsteinsstöðum. Þar eru kappar tveir og feðgar í þokkabót og nafnar meira að segja, sem ætla að heiðra okkur á Stjörnutölti 2015 með nærveru sinni. Skapti hin eldri Steinbjörnsson er ekki dauður úr öllum æðum og mætir í Léttishöllina með gæðinginn snjalla Odda frá Hafsteinsstöðum.  

21. Þá er aftur komið að því að nefna enn eina konu til skjalana, og þótt fyrr hefði verið. Þessar elskur eru alveg ómissandi ekki satt.? Við bjóðum velkomna til leiks, Ásdísi Helgu Sigursteinsdóttur. Ásdís er vel að því komin að vera boðsknapi á Stjörnutölti 2015. Hennar reiðskjóti er hryssan Þota frá Efri-Rauðalæk.

22. Sagt er um suma menn að þeir láti frekar verkin tala, frekar  en  munninn og eigi því skilið máltækið sem sagt var í orðastað Skapta heitins Áskelssonar forstjóra Slippsins í gamla daga. „Verkin sýna merkin“ Og svo sannarlega getum við sannmælst um að svo eigi vel við  um þennan kappa er hér verður kallaður til öndvegis. Á liðnum árum hefur hann, þessi dagfarsprúði maður komið fram á sjónarsviðið með hvern gæðinginn af fætur öðrum og alltaf sama hógværðin og en um leið kraumar undir niðri mikill metnaður og keppnisandi. Vignir Sigurðsson mætir á Stjörnutölt 2015 í þeim anda er við þekkjum hann svo vel á honum Danna sínum frá Litlu Brekku.

23. Þá er komið að því að eiga hér lokaorð í þessari upptalningu á keppendum Stjörnutölts á því herrans ári 2015. Stjörnutölti sem vissulega brýtur blað því þetta Stjörnutölt verður nú fyrsta sinn haldið utan Skautahallarinnar á Akureyri, og það inni í Léttishöllinni okkar á Akureyri. Stjörnutölt var fyrst haldið árið 2000, svo segja má að sá keppandi sem nú er kynntur til leiks var ekki gamall þegar Stjörnutöltið hófst enda rétt orðin 20 ára gömul. Glöggskyggnir menn átta sig sennilega á því að hér erum við að tala um kvennmann sem er sannarlega rétt, og við Léttismenn bjóðum sérstaklega velkomna til leiks á Stjörnutölt 2015, efnilegasta knapa Hestamannafélagsins Léttis s.l 2 ár, Fanndísi Viðarsdóttir. Hér er komin glæsilegur fulltrúi  framtíðarinnar og Fanndís hefur valið hryssuna Dúkkulísu frá Þjóðólfshaga 1.

24. Keppandi með þetta númer hefur marga fjöruna sopið á liðnum árum og verk hans á kynbótabrautum landsins eru bæði merk og stór. Frægðarsól hans skín mjög skært um þessar mundir og á það vel við því „skín við sólu Skagafjörður“ þaðan sem Bjarni Jónasson mun leggja upp á laugardaginn 21. mars með stefnuna á Stjörnutöltið á Akureyri. Bjarni sagði að hann væri að máta nokkur hross við töltprógrammið og hefur nú fundið kubbinn í púsluspilið sitt og kemur til leiks með stóðhestinn góðkunna, Dyn frá Dalsmynni.