fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stöndum saman um sterkan miðil

odinn@eidfaxi.is
24. júní 2019 kl. 14:46

Þráinn frá Flagbjarnarholti.

Ef allir, bæði leiknir og lærðir leggjast saman á eitt að tryggja sterkum miðli grundvöll þá getum við stolt breitt út boðskapinn.

Allt frá því að ég man eftir mér þá hef ég haft áhuga á hestum en ég man það vel þegar ég kom til ömmu og afa á Akranesi hvað mér fannst hestalyktin af afa góð. Það fór lítið fyrir því að afi færi með mig á hestbak enda var hestamennska þess tíma kannski frekar kallasport og mögulega hefur honum ekki fundist ástæða til að taka litla pjakkinn með sér í hesthúsið þegar ég kom. Örugglega hefur það ekki verið vegna áhugaleysis hjá mér, því að afi var áskrifandi af hestatímaritunum Hestinum okkar og Eiðfaxa. Eyddi ég löngum tímum inn í gestaherbergi hjá þeim að blaða í þessum blöðum sem mér fundust mest spennandi lesefni sem til var. Ég suðaði í foreldrum mínum um að fá hest, vonaðist til dæmis eftir því að fá hest í fermingargjöf en ekki varð. Í þeirri von að þessi áhugi minn á hestum eltist af mér var keypt fyrir mig myndavél í útlöndum sem var upphaf ljósmyndaáhuga míns sem nýst hefur vel í starfi fyrir Eiðfaxa. En aldrei kom hesturinn sem ég vonaðist eftir frá foreldrum mínum en áhuginn var alltaf til staðar. Það ekki fyrr en á menntaskólaárum mínum að ég átti fyrir mínum eigin hesti og var ég svo heppinn að fá pláss hjá Sigrúnu Sigurðardóttur og Erling A. Jónssyni þáverandi ritsstjóra Eiðfaxa. Erling var víðsýnn, hagmæltur og vel að sér en það er ekki síst menn eins og hann sem hafa veitt mér innblástur og viðmið í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Lagði ég það á mig svo sporlatur sem ég er að labba í hesthúsið úr Breiðholtinu í gamla Gustshverfið nánast daglega og þar eignaðist ég vini í hestamennskunni sem ég hef fylgt æ síðan.  

Tengingar mínar við Eiðfaxa eru margar og ná yfir langan tíma en það var svo fyrir tilviljun að ég var fengin til þess að skrifa einstaka grein fyrir Eiðfaxa sem vatt svo smá saman upp á sig. Það var svo önnur tilviljun sem réði því að ritsstjóratignin féll mér í skaut þrátt fyrir að hafa aldrei sóst eftir henni, enda flestir aðrir mér fremri í stjórastöðum hvers konar. Ég tók þessa ábyrgð á mig til að leggja mitt að mörkum til þess að þessi æskuvinur minn Eiðfaxi héldi lífi en þó alltaf með það á bak við eyrað að færari maður tæki við keflinu. Ég hef haft gaman af greinaskrifum og ljósmyndun hesta og samstarfi við annað áhugasamt fólk á sama rófi, en undanfarin misseri hef ég mest setið einn á ritsstjórafundi með áhugalausan eiganda sem nú tók það gæfu spor fyrir Eiðfaxa gamla að selja áhugasömum nýjum eigendum blaðið sem vonandi hressa þennan virðulega miðaldra miðil við og færa hann aftur í sín virðulegustu spariföt. Það er jafnframt von mín að fá að starfa áfram með þessum metnaðarfullu nýju eigendum og starfsmönnum, en hvort það verður leiðir tíminn í ljós. 

Það er skoðun mín að hvort sem Eiðfaxi lifi til hárrar elli eða annar miðill taki við þá eigi það að vera metnaður okkar hestamanna að standa saman að sterkum faglegum miðli um íslenska hestinn gefið út á Íslandi. Nágrannaþjóðir okkar hafa fundið flöt á þessum útgáfumálum en miðillinn verður aldrei sterkari en það bakland sem hann hefur. Ef allir, bæði leiknir og lærðir leggjast saman á eitt að tryggja sterkum miðli grundvöll þá getum við stolt breitt út boðskapinn um íslenska hestinn sem við unnum öll svo kært. 

Það hefur verið skemmtilegt að koma að því að starfa á þessum miðli og sameina brennandi áhuga minn á hestamennsku og ljósmyndun og vona ég að nýr ritsstjóri Gísli Guðjónsson færi miðilinn fram á farsælan hátt. Ég hef starfað með Gísla undanfarin misseri og veit ég að hann hefur alla þá kosti að bera til að vera góður í þessu starfi. Ég óska honum velfarnaðar í starfi og vona að framtíð Eiðfaxa undir hans stjórn með sterkt bakland færi Eiðfaxa aftur á þann stall á meðal alls þorra hestamanna sem hann á skilið.  

Óðinn Örn Jóhannsson

Fv. Ritsstjóri Eiðfaxa