laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stofnhryssan ótamin

21. desember 2014 kl. 12:00

Sveifla frá Lambanesi er stofnhryssa ræktunarinnar. Undan henni hafa nú komið fimm fyrstu verðlauna hross. Hér er hún ásamt næstsíðasta afkvæmi sínu sem er undan Fáfni frá Hvolsvelli. Alls eignaðist Sveifla fjórtán afkvæmi.

Sveifla frá Lambanesi skilur eftir sig drjúg spor.

Góð ræktunarhryssa er grundvallarþáttur í árangursríkri hrossarækt. Saga af uppruna Lambanesræktunarinnar sýnir að hryssur þurfa ekki endilega að vera hátt dæmdar heiðursverðlaunahryssur til að skila árangri. Ræktendur ársins 2014, þau Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon eru í viðtali í 12. tölublaði Eiðfaxa:

Þegar Agnar Þór var tvítugur fékk hann bleika hryssu til eignar. Hryssan sú hafði týnst í nokkur ár en fannst í stóði á næsta bæ. Hryssan var bandvön en ótamin. „Hún var heima hjá mér, að Lambanesi, í nokkur ár. Hún var aldrei tamin en sýndi okkur að hún væri nokkuð mögnuð meri. Hún fór um af mýkt með miklum fótaburði og hafði þetta einstaklega mikla skref. Við höfðum trú á henni og pabbi fékk fyrst um sinn nokkur hross undan henni,“ segir Agnar. Hryssan, sem nefnd var Sveifla, er stofnhryssa Lambanes-ræktunarinnar og hefur gefið fjórtán afkvæmi. Eðlis­kostir hennar virðast erfast vel í afkvæmunum, sem lýsir sér í skrefmiklum og ásæknum hrossum með ljúfa lund. Sveifla var felld í haust, 27 vetra gömul. „Hún skilur eftir sig drjúg spor,“ segir Agnar en afkomendur hennar eru nú hátt í hundrað talsins.

Blaðið berst áskrifendum í næstu viku en rafræna útgáfu þess má lesa hér. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.