þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðréttir í Víðidalstungurétt

2. október 2019 kl. 12:30

Mikið um að vera í Húnaþingi Vestra um helgina og allir hvattir til að mæta!

 

Allir þeir sem áhuga hafa á íslenska hestinum, söng og gleði eru hvattir til að leggja land undir fót og mæta í Víðidalstungurétt um næstkomandi helgi dagana 4.-5. október.

Á föstudegi er stóðsmölun og verður stóðinu hleypt í gegnum hliðið við Bergárbrú kl. 14:30. Áð verður að Kolugili og lagt þaðan af stað með stóðið kl. 17:30.

Á föstudagskvöldinu er stóðréttarpartý á Stóru-Ásgeirsá þar sem hljómsveit mun leika dansi. Gleðin hefst um kvöldið eftir að stóðsmölun er lokið.

Þá verður einnig mikið fjör í gestastofunni í reiðskemmunni á Gauksmýri á föstudagskvöldinu. Gestastofan opnar klukkan 21:30 og mun Júlli Trúbador halda uppi fjörinu með lifandi tónlist. Á báðum stöðum er frítt inn en 18 ára aldurstakmark, opinn bar og mikið fjör.

Á laugardegi verður stóðið rekið til Víðidalstunguréttar kl. 11:00 og í framhaldinu verður hrossunum réttað.

Um kvöldið fer svo fram stóðréttardansleikur þar sem trukkarnir leika fyrir dansi. Miðaverð er 3500 kr og hægt verður að kaupa miða í réttunum fyrr um daginn eða í dyrunum um kvöldið.