miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðhestaveisla

Óðinn Örn Jóhannsson
3. apríl 2018 kl. 08:24

Konsert frá Hofi á Stóðhestaveislunni í vetur. Knapi Agnar Þór

Samskipahöllinni laugardaginn 7. apríl.

Nú styttist í fyrri stóðhestaveislu ársins en hún verður haldin í Samskipahöllinni laugardaginn 7. apríl kl. 20. og á næstu dögum munum við kynna til leiks nokkra af þeim úrvalsgæðingum sem munu mæta til veislunnar og gleðja augu áhorfenda.

Á síðustu árum hefur Stóðhestaveislan verið nýtt til að safna fé til stuðnings góðum málefnum og með hjálp hestafólks bæði hér heima og erlendis, hafa safnast tæpar 20 milljónir króna sem nýst hafa til ýmissa góðra verka. Það verður engin undantekning á þessum sið í ár og í þetta skiptið ætlum við að safna fyrir málefni sem stendur okkur nærri.

Róbert Veigar Ketel er nafn sem margir hestamenn þekkja, enda hefur hann stundað hestamensku og hrossarækt um árabil. Róbert glímir nú við afar erfið veikindi og fyrirsjáanlega verður bataferlið langt og strangt. Vinir og velunnarar Róberts vilja leggja sitt af mörkum til að styðja við hann og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum. Því hefur Hrossarækt ehf. ákveðið að gefa 500 kr. af hverjum seldum miða á Stóðhestaveisluna í Samskipahöllinni til Róberts og fjölskyldu. Jafnframt gefst veislugestum og fleirum kostur á að leggja sitt af mörkum með kaupum á happdrættismiðum sem verða boðnir til sölu og verður happdrættið og vinningaskráin kynnt nánar þegar nær dregur. 

Miðasala á Stóðhestaveisluna er hafin og eru miðar fáanlegir í verslunum Líflands, Top Reiter, Ástundar, Hestar og menn og hjá Baldvin og Þorvaldi á Selfossi. Síðustu ár hefur allt selst upp svo tryggið ykkur miða í tíma!