sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðhestaveisla Magga Ben fyrir norðan og sunnan

20. janúar 2011 kl. 11:08

Magnús Benediktsson

Greinileg þörf fyrir sérstakar stóðhestasýningar á vorin

Stóðhestaveisla Magga Ben, sem haldin hefur verið í Rangárhöllinni síðastliðin tvö ár,  færir út kvíarnar í vor. Tvær sýningar verða haldnar, sú fyrri í Svaðastaðahöllinni á Sauðarkróki föstudaginn 1. apríl og sú seinni í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli laugardaginn 9. apríl. Magnús Benediktsson, sem er höfundur sýningarinnar og sá sem hefur borið hita og þunga af henni, segir að ástæðan fyrir þessum breytingum sé einfaldlega sú að í fyrra hafi aðskókn verið meiri en menn bjuggust við. Rangárhöllin hafi varla rúmað áhorfendur. Í Ölfushöllinni sé meira rými, bæði fyrir hross og áhorfendur. Greinilegt sé að þörf sé fyrir sérstakar stóðhestasýningar snemma á vorin.

Stóðhestaveislan verður með sama sniði og áður. Sérlegur heiðurshestur verður á báðum sýningunum. Skilyrði er að sá hestur hafi hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, sé á lífi og geti mætt á sýninguna. Áður hafa verið Kraflar frá Miðsitju og Orri frá Þúfu. Líklegir heiðurshestar í vor eru feðgarnir Kjarval frá Sauðárkróki og Oddur frá Selfossi.

Magnús segir að hvor sýning um sig sé opin fyrir stóðhesta af öllu landinu. „Það eru þegar búnir að melda sig eigendur stóðhesta á Suðurlandi sem vilja komast í Svaðastaðahöllina og kynna hestana þar. Þetta eru hestar sem verða að líkindum á Norðurlandi næsta sumar og þetta er upplagt tækifæri til að minna á hestana,“ segir Magnús.