fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðhestar til styrktar LAUF

7. apríl 2012 kl. 09:18

Einn heppinn fær að fara í reiðtúr á Spuna frá Vesturkoti í kvöld. Miði er möguleiki.

Ágóði af uppboði og happdrætti á Stóðhestaveislu til flogaveikra barna

Á annað hundrað folatollar verða boðnir upp á Stóðhestaveislu í Ölfushöllinni í kvöld. Allur ágóði af uppboðinu sem og af sölu happdrættismiða rennur til góðs málefnis. Styrkinn í ár fær LAUF félag flogaveikra, en honum verður varið til þróunar og uppbyggingar íþrótta- og tómstundastarfs flogaveikra barna og unglinga. Í fyrra rann ágóðinn af uppboðinu og happdrættinu til krabbameinssjúkra barna.

Boðnir verða upp tollar meðal annars undir þá Álf frá Selfossi og Spuna frá Vesturkoti, en þeir taka báðir þátt í sýningunni. Þeir sem hreppa tollana undir þá fá jafnframt að fara í reiðtúr þessum súper gæðingum, svo til mikils er að vinna! Einnig verður boðin upp tollur undir Arion frá Eystra-Fróðholti og margar fleiri stjörnur.

Hægt verður að kaupa happdrættismiða á staðnum og rennur allur ágóði af sölunni í söfnunina til handa LAUF. Í verðlaun eru á annað hundrað folatollar og hestaferð á Löngufjörur með Óla Flosa svo eitthvað sé nefnt. Miðinn kostar aðeins 1.000 krónur.
Forsala aðgöngumiða stendur yfir til hádegis í dag, laugardag, og öruggast að tryggja sér í miða fyrir þann tíma. Húsið opnar kl. 19.00 og sýningin hefst kl. 20. Rétt er að minna einnig á ungfolasýningu HS sem fram fer á sama stað fyrr í dag og auglýst er hér á vefnfum. Semsagt, heljarinnar hrossaræktardagur í Ölfushöllinni í dag, 7. apríl - Allir velkomnir!