mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðhestamæður framtíðar ? -

6. júlí 2010 kl. 14:23

Stóðhestamæður framtíðar ? -

Þegar þeir sem rækta hross eru að velja gripi til undaneldis er mikilvægt að skoða bakgrunn þeirra ekki síður en árangur á sýningum. Lesendum til fróðleiks og skemmtunar skoðaði Eiðfaxi svolítið bakgrunn þeirra hrossa sem komu fram á sýningunni í Skagafirði um síðustu helgi.

Í sex vetra flokki hryssna sem við skoðum hér, varð efst hryssa sem heitir frekar athyglisverðu nafni, Kelling frá Varmalæk. 

Kelling er undan Illingi frá Tóftum sem hefur nýlega verið fluttur úr landi.  Illingur var sýndur á fjögurra vetra á LM 2002 og hlaut þar 8,36, en sinn hæsta dóm fékk Illingur árið 2009 hvorki meira né minna en 8,73 í aðaleinkunn þar af 8,88 fyrir hæfileika. Illingur er undan Núma frá Þóroddstöðum sem er undan Glímu frá Laugarvatni einni helstu ræktunarhryssu Bjarna á Þoroddsstöðum og Svarti frá Unalæk sem flestir muna eftir sem miklum vekringi og einn af fáum hestum sem hlaut 10 fyrir skeið. 

Í móðurætt er Illingur undan Hríslu frá Laugarvatni sem var mjög góð Gáskadóttir og ein aðal ræktunarhryssa Bjarkars bónda á Tóftum.

Móðir Kellingar er 1. verðlauna hryssan Kengála frá Varmalæk. Kengála kom til dóms árið 1997 og hlaut þá aðaleinkunn uppá 8,09.  Kengála á fleiri nafntoguð afkæmi því stóðhesturinn Hófur frá Varmalæk sem sýndur var á LM 2008 er einnig undan Kengálu.  Faðir Kengálu er hinn kunni stóðhestur Mökkur frá Varmalæk sem verið hefur í Svíþjóð í mörgu herrans ár og er líkast til einn af meiri kynbótahestum íslenskum. Inn í ættir Mökks fléttast svo Sauðárkrókshestar því hann er undan Kolbrúnu frá Sauðarkróki Hrafnsdóttur frá Holtsmúla og Hrafnhettudóttur frá Sauðárkróki sem Varmalækjarbændur keyptu af Sveini Guðmundssyni og var ræktunarhryssa í Varmalæk upp frá því. 

Hryssan sem lenti í öðru sæti í sex vetra flokknum heitir Þokka frá Hólum. Þegar hryssur frá Hólum eru nefndar til sögunnar þá byrja margir á að skoða hvort Þrá gamla frá Hólum sé þar á bakvið.

 Í tilfelli Þokku er sú raunin því hún er undan Þrennu frá Hólum sem að margra mati er eitt besta hrossið sem frá Hólum hefur komið. Þrenna var undan Feyki frá Hafsteinsstöðum og áðurnefndri Þrá.  Þrenna var sýnd fimm vetra gömul á LM 1990 og hlaut 8,46 í aðaleinkunn þar af 8,54 fyrir hæfileika. Þrenna hlaut 9,5 fyrir háls, herðar og bóga sem er fágæt og eftirsóknarverð einkunn. 

Þrá frá Hólum var eitt af þeim hrossum sem hægt er að kalla tímamótahross. Fjögurra vetra gömul var hún sýnd á LM 1982 og voru kostirnir henni svo eðlislægir að hún var sem fullmótaður gæðingur þrátt fyrir ungan aldur. Hún hlaut 8,48 í aðaleinkunn, 8,45 fyrir hæfileika og 8,50 fyrir byggingu, þar af 9,5 fyrir háls, herðar og bóga líkt og Þrenna dóttir hennar hlaut síðar.  Þrá var undan heiðursverðlaunahestinum Þætti frá Kirkjubæ og Þernu frá Kolkuósi.

Faðir Þokku er svo hinn kunni stóðhestur Aron frá Strandarhöfði sem meðal annars er fjallað um í grein í nýjasta Eiðfaxa sem er nýkominn til áskrifenda.

Í þriðja sæti í þessum flokki er hryssa sem heitir Kolka frá Hóli v/Dalvík.  Fyrir nokkrum árum var bæjarnafnið Hóll við Dalvík mjög þekkt meðal hestamanna. Þaðan komu hross sem voru í fremstu röð á sínum tíma undan hryssunni Blesu frá Möðrufelli. Þar má nefna hross eins og stóðhestanna Sólon og Sókron og hryssurnar Sögu og Sunnu, öll kennd við Hól v/Dalvík.

Kolka er undan Sif frá Hóli sem er undan Blesu þessari frá Möðrufelli. Faðir Sifjar er svo Kolgrímur frá Kjarnholtum svo þar fléttast blóðið frá Magnúsi í Kjarnholtum inní ættir Kolku. Faðir Kolku er svo hinn kunni gæðingur Rökkvi frá Hárlaugsstöðum sem er hátt dæmdur kynbótahestur auk þess að eiga glæstan feril að baki sem keppnishestur bæði í B flokki og tölti.

Þó að svona athuganir á bakgrunni kynbótahrossa séu mun nauðsynlegri ræktendum þegar um stóðhesta er að ræða, þá má búast við að þær hryssur sem gera það gott á sýningum dagsins í dag séu stóðhestamæður framtíðarinnar. 

Því er bæði gaman og gagnlegt að hafa hugmynd um hver er þeirra bakgrunnur þegar við förum svo á næstu árum að sjá stóðhesta undan þeim hryssum sem efst standa á sýningum dagsins. -hg

Hér eru dómar þessara þriggja hryssna:

Einstaklingssýndar hryssur 6 vetra

IS2004257811 Kelling frá Varmalæk

Frostmerki: 4K811

Litur: 6420 Bleikur/fífil- stjörnótt

Ræktandi: Björn Sveinsson

Eigandi: Björn Sveinsson

F.: IS1998187280 Illingur frá Tóftum

Ff.: IS1993188802 Númi frá Þóroddsstöðum

Fm.: IS1983287003 Hrísla frá Laugarvatni

M.: IS1990257801 Kengála frá Varmalæk

Mf.: IS1985157400 Mökkur frá Varmalæk

Mm.: IS1978266245 Þruma frá Rangá

Mál (cm): 144 - 139 - 66 - 148 - 28,5 - 18,0

Hófa mál: V.fr.: 9,3 - V.a.: 8,2

Sköpulag: 8,5 - 8,5 - 7,5 - 8,5 - 8,5 - 7,5 - 9,0 - 7,5 = 8,39

Hæfileikar: 8,5 - 8,0 - 7,0 - 8,5 - 8,5 - 8,5 - 7,5 = 8,12

Aðaleinkunn: 8,23

Hægt tölt: 8,0      Hægt stökk: 8,5

Sýnandi: Björn Sveinsson

IS2004258300 Þokka frá Hólum

Örmerki: 352206000013719

Litur: 1550 Rauður/milli- blesótt

Ræktandi: Hólaskóli 

Eigandi: Hólaskóli 

F.: IS1998184713 Aron frá Strandarhöfði

Ff.: IS1989165520 Óður frá Brún

Fm.: IS1992287057 Yrsa frá Skjálg

M.: IS1985257801 Þrenna frá Hólum

Mf.: IS1977157350 Feykir frá Hafsteinsstöðum

Mm.: IS1978258301 Þrá frá Hólum

Mál (cm): 139 - 137 - 65 - 145 - 28,0 - 18,0

Hófa mál: V.fr.: 9,4 - V.a.: 7,6

Sköpulag: 8,5 - 8,0 - 8,5 - 8,0 - 8,0 - 7,5 - 8,5 - 7,0 = 8,08

Hæfileikar: 8,0 - 8,5 - 8,5 - 8,0 - 8,5 - 8,0 - 8,5 = 8,25

Aðaleinkunn: 8,18

Hægt tölt: 8,5      Hægt stökk: 8,0

Sýnandi: Þórarinn Eymundsson

IS2004265020 Kolka frá Hóli v/Dalvík

Örmerki: 968000002939769

Litur: 2500 Brúnn/milli- einlitt

Ræktandi: Þorleifur Kristinn Karlsson

Eigandi: Mette Camilla Moe Mannseth

F.: IS1997186541 Rökkvi frá Hárlaugsstöðum

Ff.: IS1982151001 Otur frá Sauðárkróki

Fm.: IS1982286412 Snegla frá Hala

M.: IS1993265020 Sif frá Hóli v/Dalvík

Mf.: IS1983187009 Kolgrímur frá Kjarnholtum I

Mm.: IS1974265640 Blesa frá Möðrufelli

Mál (cm): 143 - 138 - 67 - 148 - 28,5 - 18,0

Hófa mál: V.fr.: 8,6 - V.a.: 8,5

Sköpulag: 8,0 - 9,0 - 8,0 - 8,5 - 7,0 - 6,5 - 8,0 - 6,5 = 8,03

Hæfileikar: 8,0 - 8,0 - 8,0 - 8,0 - 8,0 - 8,5 - 8,0 = 8,08

Aðaleinkunn: 8,06

Hægt tölt: 8,0      Hægt stökk: 7,5

Sýnandi: Mette Camilla Moe Mannseth

Heimild: worldfengur.com