föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðhestafiðringurinn byrjaður

21. mars 2011 kl. 10:24

Ás frá Strandarhjáleigu, knapi Henna Jóhanna Sírén.

Fullt hús í Rangárhöllinni

Stóðhestaveisla í Rangárhöll heppnaðist vel. Höllin var þétt setin og hestakosturinn í meginatriðum góður. Afkvæmasýningar á Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Sæ frá Bakkakoti féllu vel í kramið. Í báðum hópum voru rúm ahliða gæðingshross, þó misjafnlega á veg komin í tamningu.

Enginn vafi leikur á að bestu afkvæmi Sæs eru með allra heilsteyptustu gæðingum hvað varðar gangtegundir. Einnig komu fram tveir synir Sveins-Hervars frá Þúfu, raktir keppnishestar í fjórgang, dæmigerðir fyrir föðurinn. Afkvæmi Hryms frá Hofi komu einnig vel fyrir, en þó flest lítið tamin. Nema Dögg frá Steinnesi, sem bar hópinn uppi með miklu fótataki.

Sýningar voru misjafnar eins og gengur hvað reiðmennsku varðar. Hinrik Bragason og Hekla Katarína Kristinsdóttir eru knapar sem sameina prúða reiðmennsku og afköst. Sömu sögu má segja um Elvar Þormarsson og Hennu Jóhönnu Sírén, sem hlupu í skarðið á síðustu stundu fyrir auglýst atriði sem féllu út. Sýndu þau bræðurna Skugga og Ás frá Strandarhjáleigu, sem báðir eru framúrskarandi, hvor á sinn hátt.