fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stjarna væntanleg

22. apríl 2015 kl. 14:18

Von er á folaldi undan Snugg fra Grundet Hus, sem hér sést á Norðurlandamótinu í fyrra, og Garra frá Reykjavík.

Ræktandi ársins í Danmörku velur hryssur með góðar skeiðættir.

Jóhann R. Skúlason var kjörinn ræktandi ársins í Danmörku árið 2014. Í viðtali í nýjasta tölublaði danska hestablaðsins Tölt talar hann um mikilvægi þess að nota góðar hryssur í ræktun en leggur aftur á móti ekki mikið upp úr því að koma fram með fjögurra vetra hross til kynbótadóms.

Jóhann segist telja að hestar í Danmörku séu lengur að koma til miðað við hross á Íslandi, vegna ólíkra náttúruskilyrða. ,,Hrossin geta ekki byggt upp styrkleika og þol í danskri grund á sama hátt og þeir geta á Íslandi. Ef hestar reynast tilbúnir í dóm fjögurra vetra, þá er það bónus. En ég horfi meira til þess hvort þeir standist væntingar mínar. Þegar litið er til ætta bestu fjögurra vetra hryssa í fyrra, þá eru þær undantekningalaust undan góðum skeiðhestum í móðurættina,“ er haft eftir hrossaræktandanum.

Alls komu sex hross, kennd við Slippen, til dóms árið 2014 og er meðaltal aðaleinkunnar þeirra  8,24. Meðal ræktunarhryssa í notkun nú er Norðurlandameistarinn Snugg fra Grundet Hus en hún á von á sínu fyrsta folaldi undan Garra frá Reykjavík - upprennandi stjarna í bígerð þar.