miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Steinunn Jónsdóttir kaupir Þrift frá Hólum

12. október 2012 kl. 17:29

Þrift frá Hólum á LM2011 á Vindheimamelum. Knapi Mette Mannseth.

Þrift frá Hólum fer ekki til útlanda en verður áfram ræktunarhryssa á Íslandi, að öllum líkindum á Bæ á Höfðaströnd.

Steinunn Jónsdóttir, athafnakona í Reykjavík og frumkvöðull á Bæ á Höfðaströnd, hefur fest kaup á hryssunni Þrift frá Hólum. Steinunn staðfesti þetta í samtali við Hestablaðið. Þessi fagra hryssa er því ekki á leið úr landi eins og margir óttuðust þegar Hólaskóli auglýsti hana til sölu ásamt fleiri hryssum búsins.

Steinunn vildi að svo stöddu ekki tjá sig um fyrirætlanir varðandi Þrift, en sagði að líklega myndi annað hrossaræktarbú eignast hluta í henni. Það kæmi í ljós bráðlega. Hún segir þó mest um vert að Þrift sé ekki á leið úr landi, heldur verði áfram ræktunarhryssa á Íslandi.

Fram til þessa hefur ekki verið rekin viðamikil hrossarækt á Bæ. Staðurinn er betur þekktur fyrir Listasetrið Bæ á Höfðaströnd sem er aðsetur listamanna og arkitekta yfir sumartímann. Mikil eftirspurn er meðal útlendinga að komast að á setrinu og komast færri að en vilja. Á Listasetrinu er gallery þar sem haldnar eru nokkrar sýningar á verkum listamannanna á hverju sumri. Sjá heimasíðu Listasetursins HÉR.