mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Steingrímur Sigurðsson í Hjarðartún

Jens Einarsson
29. september 2009 kl. 12:12

Nýtt hesthús og reiðhöll

Steingrímur Sigurðsson, tamningamaður, hefur tekið á leigu hesthús og reiðhöll á Hjarðartúni í Hvolhreppi. Hjarðartún er í eigu Óskars Eyjólfssonar, sem oft er kenndur við Frumherja. Öll aðstaða fyrir hrossahald á Hjarðartúni er nýuppbyggð.

Tvöfaldur sigurvegari í A flokki

Steingrímur er frægastur fyrir að hafa tvisvar orðið efstur í A flokki gæðinga á Landsmótum á stóðhestinum og gæðingnum Geisla frá Sælukoti. Hann flutti frá Reykjavík í Hvolsvöll fyrir þremur árum og var tamningamaður á Ármótum, hjá Hafliða Halldórssyni stórbónda, þar til fyrir skemmstu að hann flutti sig á Hjarðarból. „Ég var að taka inn fyrstu hrossin í gær. Þetta er rosalega góð aðstaða hér. Nýtt hesthús og reiðhöll, sem er 20x40 metrar að flatarmáli.“ segir Steingrímur.

Spenntur fyrir dætrum Mídasar

Eins og venjulega verður Steini með marga þekkta gæðinga á járnum. Hann vill þó lítið segja um þá að svo stöddu en nefnir að Mídas frá Kaldbak verði hjá honum áfram og jafnvel verði stefnt með hann í úrtöku í B flokk fyrir Landsmót á Vindheimamelum. „Mídas er mikill hestur og virkilega gaman að ríða á honum. Ég er að byrja á nokkrum dætrum hans á fjórða vetur; það fyrsta sem komið er á tamningaaldur undan honum. Ég hlakka mikið til að temja þær. Myndarleg trippi. Sú fyrsta fer vel af stað. Ég er einnig með ungan stóðhest sem mér finnst mjög spennandi. Hann heitir Heimur frá Votmúla og er undan Kveik frá Miðsitju. Hágengur og flottur foli. Ég er nokkuð vongóður með hann,“ segir Steingrímur Sigurðsson.