sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnubreyting eða eðlileg þróun

20. febrúar 2010 kl. 22:56

Íþróttamót ? Markaðstorg ? Útihátíð

Sú ákvörðun stjórnar LH að hefja viðræður við Fák í Reykjavík um Landsmót 2012 hefur ollið allnokkru fjaðrafoki. Sunnlendingar eru ósáttir og hafa látið undirskriftarlista liggja frammi víða um land. Yfirskrift undirskriftarlistans er áskorun á stjórn LH að endurskoða ákvörðun sína um fyrirhugað staðarval. Bjarni Finnsson hefur verið formaður hestamannafélagsins Fáks síðastliðin fjögur ár. Félagið hefur stækkað umtalsvert í formannstíð hans, eftir nokkurra ára lægð þar á undan, og þátttaka í íþrótta- og gæðingamótum félagsins hefur náð nýjum hæðum varðandi þátttöku. Landsmót var haldið í Reykjavík árið 2000. Það tókst að margra mati allvel, þrátt fyrir nokkur skipulagsmistök. Miðsölukerfið sem notað var reyndist hins vegar ekki nógu skylvirkt. Þar að auki er talið að fjöldi manns hafi svindlað sér inn á svæðið, jafnvel tvö til þrjú þúsund manns. Fákur hefur sótt um Landsmót í hvert sinn síðan, að frátöldu LM2002. Það að LH opni á viðræður við félagið ætti því ekki að koma fólki á óvart.Við ræddum við Bjarna og nokkra aðra aðila sem málið snertir.

LM2000 var gott mót

„Landsmótið í Reykjavík árið 2000 var að mínu mati mjög gott mót,“ segir Bjarni. „Ég var ekki í félagsmálum þá. Var bara eins og hver annar áhorfandi að skemmta mér. Mér fannst aðstæður að flestu leyti mjög góðar en geri mér ljóst þegar ég lít til baka að það er töluvert mál að girða svæðið af til að tryggja að allir borgi sig inn. Það er hins vegar vel framkvæmanlegt. Það hefur líka verið rætt um að staðsetning veitinga hafi ekki verið nógu góð og að kvöldstemmingin hafi ekki verið með sama hætti og á Landsmótum í dreifbýlinu. Það er auðvelt að lagfæra þetta með veitingarnar og staðsetja veitinga- og sölutjöld þannig að það myndist sú verslunargötu stemmning sem sett hefur svip sinn á síðustu Landsmót. Varðandi kvöldstemmningu þá má rifja upp að mjög góð stemmning var á Fjórðungsmóti í Reykjavík árið 1985. Skipulag og stemmning á því móti þótti reyndar afskaplega góð. Þannig að það er ekkert sem segir að Landsmót í Reykjavík geti ekki verið skemmtilegt. Þetta er bara spurning um skipulag og hvernig til tekst í það og það skiptið.“

Sjá ítarlega umfjöllun og viðtal við formann Fáks og aðra formenn hestamannafélagana  í Hestar og hestamenn sem kom út 18. febrúar