laugardagur, 15. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í öfluga kynbótasýningu á Vindheimamelum -

25. júní 2010 kl. 17:38

Stefnir í öfluga kynbótasýningu á Vindheimamelum -

Tæplega 100 hross hafa verið skráð til leiks á seinni Héraðssýningu kynbótahrossa í Skagafirði sem fram mun fara á Vindheimamelum í næstu viku. Þessi góða þátttaka gefur fyrirheit um að hrossin séu að komast í gegnum pestina og að hestamennskan sé aftur að komast í gang.

Búið er að skrá flest hrossin í sýninguna inn í Worldfeng og þar má nálgast upplýsingar um hvaða hross eru væntanleg en ráslistar verða birtir inn á horse.is á mánudag. Gert er ráð fyrir að sýningin hefjist á miðvikudag.

Vellirnir á Vindheimamelum líta vel út enda voru þeir orðnir klárir fyrir landsmótshald. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á gömlu kynbótabrautinni og verður því um nokkurskonar vígslu að ræða á henni eftir endurbæturnar.

Þá má minna á að margt verður um að vera í Skagafirði í næstu viku á hinni svokölluðu Sumarsælu.
Hrossaræktarbúin Hjaltastaðir, Miðsitja, Syðra-Skörðugil, Vatnsleysa og Ytra-Skörðugil verða með opna daga og taka á móti gestum (sjá nánar horse.is). Þá stefnir í mikla hrossaræktarveislu á Vindheimamelum laugardaginn 3. júlí með yfirlitssýningu kynbótahrossa, kynningu á stóðhestum og ræktunarbúum ásamt grilli og léttri stemningu. Um kvöldið verður síðan Hestamannateiti á Hótel Varmahlíð.