laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í harða deilu um Landsmót hestamanna

5. febrúar 2010 kl. 09:35

Raddir heyrast um úrsögn úr LH

Sunnlenska fréttablaðið, 4. febrúar, fjallar um þann ágreining sem uppi er meðal hestamanna um væntanlegt Landsmót í Reykjvík. Þar kemur fram að sunnlenskir hestamenn hafa rætt um að segja sig úr Landssambandi hestamannafélaga.

Guðmundur Lárusson á Stekkum, formaður Sleipnis á Selfossi, segir að sunnlenskir hestamenn mótmæli þeirri stefnubreytingu LH að færa Landsmótin úr sveit í borg. Von sé á undirskriftarlistum stuðningsfólks úr öllum landshlutum sem mótmæli þessari stefnubreytingu. Svo veigamikil breyting hljóti að þurfa að ræðast á landsþingi LH í stað þess að hún sé ákveðin af fjórum af sjö stjórnarmönnum. Guðmundur segir umræðuna komna á það stig að menn ræði úrsögn úr LH. Hann telur það óheppilegt ef svo færi. Fram kemur í Sunnlenska að 3700 manns hafi skráð sig á fésbókarsíðu þar sem fólk mótmælir því að Landsmót hestamanna verði haldið í Reykjavík.

Því má svo bæta við að Eyfirðingar sögðu sig úr LH á sínum tíma þegar miklar deilur voru uppi milli þeirra og Skagfirðinga um Landsmót. LH stóð þá með Skagfirðingum, sem fengu Landsmót sem heiðursmannasamkomulag hafði verið gert um að haldið yrði í Eyjafirði.