mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir hátt með Ás - Viðtal við Hennu Johönnu Sírén-

24. febrúar 2011 kl. 16:09

Stefnir hátt með Ás - Viðtal við Hennu Johönnu Sírén-

Frumraun Hennu Johönna Sirén í Meistaradeildinni í gærkvöldi er nokkuð eftirminnileg. Hestur hennar, Ás frá Strandarhjáleigu, hræddist og virtist vera í hálfgerðu sjokki yfir öllu tilstandinu í Ölfushöll.  Hins vegar leyndist engum viðstöddum að hesturinn er glæsilegur, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér, og hefði  án efa getað leyst verkefnið vel.

Eiðfaxi sló á þráðinn til hinnar efnilegu Hennu, sem er finnsk tamningakona á 24. vetri. Hún hefur búið hér á landi í 5 ár og starfar hjá feðgunum í Strandarhjáleigu, Elvari og Þormari, og vakti meðal annars athygli á síðasta Landsmóti þegar hún var efst eftir milliriðla á Gormi frá Fljótshólum.

Hvað kom fyrir í gær?

„Við vissum vel af þessari áhættu. Hesturinn er viðkvæmur, hefur verið hræddur í látum og ef það er mikið að gerast í kringum hann, en við höfum verið að venja hann við. Svo þegar á hólminn var komið var bara erfitt að koma honum inn á völlinn og hann var á bremsunni allan tímann. Ég hefði getað keppt á Gormi og sýnt örugga sýningu. En við ákváðum að taka þessa áhættu því ef Ás hefði komist yfir hræðsluna þá hefði honum getað gengið svo vel,“ segir hún.

Ás frá Strandarhjáleigu er sjö vetra klár í eigu Hennu, undan Þrist frá Feti og Skímu frá Búlandi. „Ég hef þekkt hann síðan hann var 4 vetra gamall og tamdi hann með Elvari. Þetta er mjúkur fótaburðahestur en, eins og sást í gær, þá er hann pínu viðkvæmur.“

Hvenær sjáum við ykkur Ás aftur í Meistaradeildinni?
„Ég veit nú ekki,“  segir hún hlær. „Ás mætir allavega ekki í slaktaumatölt!“

Henna segist þó vera að þjálfa efnilega Illingsdóttur frá Tóftum, sem kemur til greina sem keppnishestur hennar fyrir fimmgangskeppnina að tveimur vikum liðnum. „Strákarnir í liðinu eru að meta hana með mér, það er sem betur fer ekki þannig að þeir ætli ekki að hleypa mér aftur á völlinn eftir það sem gerðist í gær,“ segir hún kát.

Henna mun þó láta til sín taka á Ás í vetur og vor og stefnir á mörg mót með þennan fallega klár. „Við ætlum að keppa á fullu og prófa okkur áfram og fá reynslu saman. Hann hefur allt til staðar til að geta gengið vel,“ segir Henna að lokum.