miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefán Birgir sigurvegari Bautatölts

23. febrúar 2015 kl. 09:59

Stefán Birgir Stefánsson og Aldís frá Krossum.

Eldri sigurvegarar bitust um gullið.

Stefán Birgir Stefánsson, bóndi í Litla-Garði, sigraði ísmótið Bautatölt á Akureyri í gærkvöldi á hryssunni Aldísi frá Krossum. Samkvæmt frétt frá mótshöldurum bitust gamlir sigurvegarar mótsins um fyrsta sætið, en Bautatölt hefur verið haldið frá árinu 2000.

"Í gærkvöldi var Bautatöltið haldið í Skautahöllinni. Þetta var í 14. sinn sem þetta mót er haldið og tókst vel að vanda. Segja má að hið fornkveðna"magnið skiptir ekki máli heldur gæðin" hafi átt við því nokkuð færri keppendur voru skráðir til leiks nú en áður. En nóg var af gæðunum og gæðingunum.

Er þessi fækkun keppenda á Skautahallarmótunum í takti við það sem er að gerast annarstaðar og má ekki bara segja að þessi mót eins góð og skemmtileg og þau eru og voru, séu bara að líða sitt skeið á enda ef segja má að töltmót líði sitt skeið. Hvað segja dómararnir við því? Við skulum þó ekki draga úr því að Bautatölt verði haldið að ári.

Mótið var engu að síður hin besta skemmtun og mörg glæsileg tilþrif sáust í Skautahöllinni í gærkvöldi.

Fór svo að lokum að sigurvegari Buatatölts árið 2015 er Stefán Birgir Stefánsson bóndi í Litla - Garði á glæsihryssunni Aldísi frá Krossum. Einkunn 7.67. Magnús B Magnússon sigurvegari Bautatölts í fyrra lenti í öðru sæti á hryssunni Birtu frá Laugardal. Einkunn 7.42. Sigurvegarar Bautatölts árið 2013 Jón Helgi Sigurgeirsson lenti í þriðja sæti á gæðingnum Töfra frá Keldulandi. Einkunn 7.13. Guðmundur Karl Tryggvason sigurvegari Bautatölts 2012 lenti svo í fjórða sæti á hryssunni Rún frá Reynistað einkunn 7.00. Og í fimmta sæti lenti svo Höskuldur Jónsson á hestinum Sólfaxa frá Sámsstöðum. einkunn 6.63. en Höskuldur sigraði B úrslitin með glæsibrag. Höskuldur er því sá eini af þessum köppum sem hefur aldrei staðið á efsta stalli í Bautatölti en hefur þó unnið sér það til frægðar að vera fyrsti sigurvegari Stjörnutölts Hestamannafélagsins Léttis sem haldið hefur verið frá árinu 2000 einmitt í Skautahöllinni á Akureyri, og þá og þar sigraði Höskuldur glæsilega.

Segja má því að í úrslitunum hafi verið saman komnir miklir kappar og vinnerar og báru A úrslitin svo sannarlega keim af því, hörkukeppni frá fyrstu sporum til þeirra síðustu," segir í fréttinni.

Niðurstöður B-úrslita urðu eftifarandi:

  1. Höskuldur Jónsson                 Sólfaxi frá Sámsstöðum         6,67
  2. Vignir Sigurðsson                   Danni frá Litlu Brekku            6,46
  3. Þorbjörn Hreinn Matthíasson    Séns frá Bringu                     6,42
  4. Atli Sigfússon                         Hábeinn frá Miðgerði              6,17
  5. Lisa Lantz                              Dúkkulísa frá Þjóðólfshaga      5,54