fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Starfsemi Gusts með óvenjulegu sniði í vetur

21. október 2011 kl. 11:19

Starfsemi Gusts með óvenjulegu sniði í vetur

Í pistli formanns Gusts harmar stjórn hestamannafélagsins ákvörðun Kópavogsbæjar um að eyða fjármunum í niðurrif Glaðheimasvæðisins í stað þess að nýta fjármuni í brýna uppbyggingu á nýju félagssvæði á Kjóavöllum. Viðræður milli Gusts og Kópavogsbæjar um framkvæmdir á Kjóavöllum hafa gengið nokkuð treglega; fulltrúum Gusts þykir litlu miða varðandi efnda samninga, en fulltrúar Kópavogsbæjar setja fyrir sig breyttar fjárhagsforsendur síðan árið 2006 þegar samningur um flutning Gusts á Kjóavelli var gerður.

Skipuð hefur verið Kjóavallanefnd sem vinnur nú til jóla að skipulagsvinnu á hinu nýja svæði. En ljóst er að starf hestamannafélagsins verður með nokkuð óvenjulegu sniði í vetur, t.d. muni einhver hluti starfseminar fara fram í reiðhöllinni í Glaðheimum þar sem ný reiðskemma hefur enn ekki risið á Kjóavöllum.

Hér er pistill formannsins sem birtist á heimasíðu Gusts í gær:

Ágætu félagar.

Nú er sumarið að baki og haustið komið af  fullum þunga. Liðið sumar verður í minningarbrunni okkar Gustara dapurlegt fyrir þær sakir að Kópavogsbær ákvað einhliða að jafna Glaðheimasvæðið við jörðu. Þrátt fyri mótmæli stjórnar Gusts sem voru að engu höfð, var ákveðið að hálfu ráðamanna bæjarinns að fjármunum yrði best varið í þessi niðurrif frekar en að nota þá fjármuni í uppbyggingu á Kjóavöllum.

Á félagsfundi í maí voru kosnir fulltrúar Gusts í viðræðunefnd Kópavogsbæjar og Gusts sem ætlað var að semja um uppbyggingu á Kjóavallasvæðinu.

Nefndin tók þegar til starfa og átti marga fundi með embættismönnum Kópavogsbæjar.  Viðræður um framkvæmdir á Kjóavöllum gengu erfiðlega og litlu miðaði varðandi efndir samninga á milli Gusts og Kópavogsbæjar varðandi uppbyggingu á svæðinu.

Í ágústmánuði var nefndin boðuð á fund með hjá Kópavogsbæ og voru janfnframt boðaðir á fundinn fulltúar Andvara og Garðabæjar. Á þeim fundi kom í ljós að heilmikil skipulagsvinna er eftir á nýju félagssvæði á Kjóavöllum. Þeirri vinnu þarf að hraða sem mest má svo hægt verði að hefja uppbyggingu reiðvalla, reiðvega og annarra mannvirkja þeim tengdum. Skipulagsvinna þessi er nú hafin og er að störfum enn ein nefndin, Kjóavallanefnd, en í henni eru fulltrúar Gusts, Andvara, Kópavogs og Garðabæjar. Von er til þess að þessari vinnu verði lokið fyrir jól.

Reiðskemma hefur ekki enn farið í útboð og er það miður. Lokið var við að gera púða undir reiðskemmuna í nóvember 2010 en ekkert hefur bólað á húsinu. Erfiðlega hefur gengið hjá Kópavogsbæ að fá teikninguna til þess að passa á púðann en er ég fullur bjartsýni á að lending náist í því máli.

Kvartað hefur verið, að hálfu Kópavogsbæjar, um að það séu breyttar forsendur frá árinu 2006 þegar  samningar um flutning Gusts á Kjóavelli voru gerðir. Það  er mat stjórnar Gusts að greiðsluforsendur Kópavogsbæjar gagnvart uppbyggingu á Kjóavöllum hafi í engu breyst. Það er hinnsvegar von stjórnar Gusts að einhliða ákvörðunum  Kópavogsbæjar varðandi framtíð hestamannafélagsinns Gusts ljúki nú og virðing verði borin fyrir því starfi sem samninganefnd Gusts er að vinna.  Það er krafa félagsins að farið verði eftir þeim samningum sem gerðir voru um flutning félagsins á Kjóavelli og uppbyggingu þar.

Nú fer vetrastarfið að hefjast og ljóst að starfsemi Gusts verður með óvenjulegu sniði í vetur. Reiðhöllin í Glaðheimum er enn uppistandandi og verður hún opin í vetur.

Þar verða einhver reiðnámskeið og verður það kynnt á vegum fræðslunefndar. Æskulýðsnefndir Andavara og Gusts hafa fundað saman og verður samstarf á milli þeirra í vetur hvað varðar reiðnámskeið og annað æskulýðsstarf. Mun það verða auglýst þegar nær dregur.

Fh. stjórnar

Hermann Vilmundarson