miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærstu stóðréttirnar framundan

26. september 2013 kl. 14:00

Stóðréttir eru ávallt vinsælar hjá hestamönnum.

Laufskálaréttir og Víðidalstunguréttir

Næstu tvær helgar fara fram stærstu stóðréttir á Íslandi, annars vegar í Skagafirði og hins vegar í V-Húnavatnssýslu. 
Hinar árlegu Laufskálaréttir fara fram lau. 28. sept. nk. og verður mikið um dýrðir í Skagafirði að venju þá helgina. Fjörið hefst í Svaðastaðahöllinni á föstudagskvöldið, 27. sept., með gæðingum, gríni og söng. Stóðið er síðan rekið til réttar undir hádegi á laugardag, 28. sept.  og réttarstörf hefjast kl. 13:00 og þá þurfa allir að vera mættir til þess að upplifa einstaka stemningu. Heimreksturinn úr réttinni er svo kapítuli út af fyrir sig, kjötsúpa á öðrum hvorum bæ og gleðin við völd. Síðast en ekki síst er svo stórdansleikur í Reiðhöllinni Svaðastöðum á laugardagskvöldið. 

Helgina á eftir er það svo Víðidalstungurétt í Víðidal í V-Hún., en föstudaginn 4. október er stóði af Víðidalstunguheiði smalað til byggða. Það er mögnuð sjón að sjá stóðið renna heim í sveitina síðdegis á föstudeginum og eru allir velkomnir að upplifa þessa stemmingu með heimamönnum. 
Kaffisala verður í skemmunni á Kolugili milli kl 14 og 17. Í réttarskúrnum er svo hægt að fá kjötsúpu frá kl 17. 
Kl. 20.30 er svo opið hús í reiðhöllinni á Gauksmýri en þar er verið að vígja nýja aðstöðu. 

Réttarstörf hefjast svo kl. 10 laugardaginn 5. október þegar stóðið verður rekið til réttar. 
Í réttinni á laugardeginum verður uppboð á gæðingsefnum og happdrætti þar sem 1. vinningur er folald! 
Miði í happdrættinu fæst með því að versla veitingar í réttarskúrnum. 
Bændur á Stóru-Ásgeirsá bjóða gesti velkomna í hesthúsið milli kl 15 og 17 á laugadag. 
Réttardansleikur í Víðihlíð á laugardagskvöld. 

Í Víðidalstungurétt má jafnan sjá fjölda efnilegra unghrossa og bjóða Húnvetningar alla hjartanlega velkomna.

Það ætti engum að þurfa að leiðast næstu tvær helgar og tilvalið að skella sér í réttir, hitta skemmtilegt fólk og skoða flott hross!