mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærsta reiðhöll landsins rís á Kjóavöllum

14. nóvember 2012 kl. 10:52

Mikill einhugur og jákvæð stemmning ríkti á stofnfundi nærst stærsta hestamannafélags landsins sem haldinn var í Glaðheimum.

Hestamannafélagið á Kjóavöllum er næst stærsta hestamannafélag landsins með eitt þúsund félagsmenn.

Fjölmennur stofnfundur nærst stærsta hestamannafélags landsins, Hestamannafélagsins á Kjóavöllum, samþykkti byggingu stærstu reiðhallar landsins, sem rísa mun á Kjóavöllum á næsta ári. Hátt á þriðja hundrað manns voru á fundinum, sem haldinn var í félagsheimili Gusts í Glaðheimum, og skráðir félagar eru eitt þúsund.

Sú reiðhöll sem er á teikniborðinu nú er um 4000 fermetrar að flatarmáli. Reiðgólfið er 70X35 metrar og gert er ráð fyrir 800 áhorfendum í stúku, félagsheimili og 250 fermetra inniaðstöðu fyrir hesta og knapa. Áætlaður byggingarkostnaður er sirka 650 milljónir.

Fyrir liggur að félagið á nánast fyrir framkvæmdum. Þar af koma um 600 milljónir frá bæjarfélögunum í Kópavogi og Garðabæ: 500 milljónir sem Kópavogsbær greiddi fyrir eignir Gusts í Glaðheimum, og síðan mun Garðabær leggja til 100 milljónir sem greiðast út fyrir árið 2016. Til viðbótar leggur Gustur til 40 milljónir í peningum og að auki á sameinað félag talsverðar eignir.

Þar á meðal er félagsheimili og reiðhöll Andvara og var sá möguleiki viðraður að þær eignir kynnu að verða seldar ef brúa þyrfti bil í fjármögnun. Kristinn Hugason, Andvaramaður, varaði við þeirri hugmynd og benti á nauðsyn þess að hinn almenni hestamaður hefði aðgang að aðstöðu sem þessari í nánd við sín hesthús. Reiðhöllin hefði verið byggð af hagkvæmni og það yrði mikið áfall ef hún yrði seld og jafnvel fjarlægð af svæðinu.

Ekki var tekin afstaða til þess máls á fundinum en vænta má að hesthúseigendur í Andvara taki það upp á aðalfundi hins nýja félags sem haldinn verður í byrjun næsta árs. þá verður einnig kosin ný stjórn og nýtt nafn tekið til umræðu.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður hins sameinaða félags, gat þess að nýtt nafn yrði án efa tilfinningamál, en sjálfur kynni hann vel við núverandi vinnuheiti, það er að segja Hestamannafélagið á Kjóavöllum.