fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Staðsetning Íslandsmóta umdeild

8. nóvember 2014 kl. 13:13

Íslandsmót mun fara fram á félagssvæði hestamannafélagsins Spretts árið 2015.

Hestamannafélögin Sprettur og Fákur munu halda Íslandsmót 2015 og 2016 samkvæmt kosningu. Skuggi fær Íslandsmót yngri flokka 2016.

Samkvæmt niðurstöðu kosninga á Landsþingi LH verða bæði Íslandsmótin árið 2015 haldin á svæði hestamannafélagsins Spretts. Hestamannafélagið Hörður sótti um að fá að halda Íslandsmót yngri flokka en Sprettur fékk mikinn meirihluta atkvæða.

Hestamannafélagið Fákur var eitt í kjöri fyrir Íslandsmót fullorðinna 2016. Hjörtur Bergstað, formaður félagsins, tilkynnti hins vegar að félagið sótti um að halda bæði mótin sameiginlega, á sama tíma, það árið. Hestamannafélögin Sleipnir og Skuggi sóttu um Íslandsmót yngri flokka 2016 ásamt Reykjarvíkurfélaginu. Í ljósi þess að hestamannafélagið Sprettur fékk bæði mótin árið 2015 dró Sleipnir umsókn sína um Íslandsmót fullorðinna 2016 til baka en um leið lýsti Magnús Ólafsson formaður Sleipnis því yfir að félagið myndi sækja um bæði mótin árið 2017.

Skuggi hlaut meirihluta atkvæða í nokkuð jafnri kosningu og verða því Íslandsmót yngri flokka 2016 í Borgarnesi.

Í framhaldi kvaddi Hrönn Kjartansdóttir frá Herði sér hljóðs og mótmælti ákvörðun þingsins um Íslandsmót yngri flokka árið 2015 og vísaði í lög LH þar sem segir að heimilt sé að veita undanþágu til þess að halda mótin saman, sé þess ekki nokkur kostur að halda þau sitt í hvoru lagi. Ákvörðun þingsins var beint til nýrrar stjórnar og mun hún því taka endanlega ákvörðun um dagsetningu Íslandsmóta 2015.